Gálgahraun eða Garðahraun?

Flogið yfir hraunið í vikunni. Hér sést hvar vegurinn á …
Flogið yfir hraunið í vikunni. Hér sést hvar vegurinn á að liggja. mbl.is/RAX

Tvennum sögum fer af því hvort hraunið sem leggja á nýjan Álftanesveg um beri heitið Garðahraun eða Gálgahraun. Hraunið hefur yfirleitt verið kallað Gálgahraun í umfjöllun fjölmiðla um mótmælin gegn vegaframkvæmdunum undanfarið en í sumum tilfellum hefur heitið Garðahraun verið notað. Vafalítið má gera ráð fyrir að þessi mismunandi nafnanotkun hafi ruglað ýmsa í ríminu.

Þeir sem mótmælt hafa vegaframkvæmdunum hafa iðulega rætt um Gálgahraun að undanförnu en stuðningsmenn framkvæmdanna viljað meina að þar væri ekki farið rétt með. Hraunið þar sem nýr vegur eigi að liggja heiti Garðahraun. Gálgahraun sé þar fyrir norðan, sé friðlýst og liggi utan framkvæmdasvæðisins. „Framkvæmdin fer fram í Garðahrauni en ekki í Gálgahrauni sem liggur allt norðan framkvæmdasvæðisins. Það er því ekkert hróflað við Gálgahrauni og alls ekki Gálgakletti,“ segir til að mynda á vefsíðu Vegagerðarinnar 26. september síðastliðinn.

Samfellt hraun með eitt nafn eða tvö?

Sama sjónarmið hefur Garðabær kynnt í samræmi við aðalskipulag bæjarins. Nýjum Álftanesvegi er samkvæmt því ætlað að liggja á mörkum Gálgahrauns í norðri og Garðahrauns í suðri sem hugmyndin er að fari undir íbúabyggð í framtíðinni. Þessari skilgreiningu á Gálgahrauni hefur sem fyrr segir verið hafnað í röðum andstæðinga nýs Álftanesvegar að undanförnu. Vegurinn liggi ekki um Garðahraun heldur Gálgahraun og jafnvel hefur verið rætt um að hraunið í heild heiti Gálgahraun.

Ómar Ragnarsson, sjónvarpsmaður, segir þannig til að mynda á heimasíðu sinni 23. október síðastliðinn að það sé „nýtt í málinu að fara nú að skipta hrauninu í sjálfstæðar heildir sem hafi alltaf verið sjálfstæðar og sitt hvort hraunið, því að áratugum saman hefur þessi hraunsheild verið nefnd heildarheitinu Gálgahraun.“ Birtir hann loftmyndir því til stuðnings að hraunið sé ein heild. Ljóst er þó eins og áður segir að ekki eru allir í röðum andstæðinga Álftanesvegarins á þeirri skoðun.

Þannig má nefna að Eiður Guðnason, fyrrverandi sendiherra sem einnig hefur beitt sér gegn vegaframkvæmdunum, ritaði grein í Morgunblaðið 24. september fyrir ári til varnar hrauninu en þar tekur hann fram a hraunið beri „reyndar tvö nöfn, Gálgahraun og Garðahraun. Nafnið Gálgahraun er svipmeira og söguþrungið og hraunið ein heild þótt nöfnin séu tvö.“ Síðar í greininni skorar Eiður á bæjarstjórnamenn í Garðabæ að sýna náttúruvernd í verki og „varðveiti þá gersemi sem Gálgahraunið/Garðahraunið er“.

Garðahraun í fyrra en Gálgahraun í dag?

Grein Eiðs var birt á heimasíðu samtakanna Hraunavina sem hafa verið fremst í farabrodddi þeirra sem mótmælt hafa lagningu nýs Álftanesvegar. Á heimasíðunni er víðar skírskotað til þess að hraunið beri tvö nöfn. Þannig segir í athugasemdum samtakanna við greinargerð Vegagerðarinnar og Garðabæjar um Álftanesveg 3. júní í sumar: „Allt frá stofnun félagsins hafa félagsmenn fylgst náið með fyrirhuguðum framkvæmdum í hraununum, ekki síst í Garðahrauni og Gálgahrauni sem eru hluti Búrfellshrauns. Hefur félagið margítrekað varað við áformum um lagningu nýs Álftanesvegar um ósnortið hraunið.“

Miðað við málflutning fulltrúa Hraunavina að undanförnu líta þeir svo á að fyrirhugaður Álftanesvegur eigi að leggja um Gálgahraun. Þannig segir til að mynda 11. júní í sumar á heimasíðu samtakanna að fern umhverfisverndarsamtök hafi stefnt Vegamálastjóra „til viðurkenningar á því að framkvæmd sú um gerð Álftanesvegar milli Hafnarfjarðarvegar og Bessastaðavegar um þvert Gálgahraun, sem Vegagerðin auglýsti með útboði hinn 7. ágúst 2012 sé ólögmæt.“ Hins vegar vekur athygli að á sömu heimasíðu 28. október í fyrra segir frá því að Hraunavinir hafi efnt til gönguferðar „um þær slóðir þar sem áætlað er að færa Álftanesveg til norðurs út í Garðahraun.“

Eiga báðar skoðanir hugsanlega rétt á sér?

Þannig virðast vera talsvert skiptar skoðanir um það hvernig þessum málum er háttað og það ekki einungis á milli stuðningsmanna og andstæðinga nýs Álftanesvegar. Hugsanlega er skýringuna að finna í umfjöllun á vefsíðunni Ferlir.is þar sem fjallað er um gönguferð um Garðahraun en þar segir: „Hraun þetta nefnist ýmist Gálgahraun eða því er skipt í tvö nöfn, Garðahraun og Gálgahraun þar sem hið fyrrnefnda er suðausturhluti þess en hið síðarnefnda er nyrðri og vestari hlutinn.“

Þessu til viðbótar má nefna svar Sigurðar Steinþórssonar, prófessors í jarðfræði við Háskóla Íslands, á Vísindavefnum þar sem hann svarar spurningu um uppruna hraunsins sem liggur yfir Hafnarfirði og Garðabæ að hluta. Þar bendir hann á að hraunið í heild nefnist Búrfellshraun, eins og áður er komið inn á, en ýmsir hlutar þess beri sérstök nöfn „svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun.“ Kort fylgir svarinu sem sýnir Gálgahraun sem nyrsta hluta hraunsins en Garðahraun þar fyrir sunnan.

Þannig er ljóst að bæði nöfnin, Garðahraun og Gálgahraun, eru fyrir hendi og að umrætt hraun sem segja má að afmarkist af byggð í Garðabæ og Álftanesi (sem í dag er hluti Garðabæjar) skiptist á milli þessara nafna. Heimildir virðast sömuleiðis benda til þess að nafnið Gálgahraun hafi í einhverjum tilfellum í það minnsta verið notað yfir hraunið í heild. Þannig virðast báðar skoðanir eiga rétt á sér. Hitt er svo annað mál hvort vegstæði nýs Álftanesvegar er ætlað að liggja um Gálgahraun eða Garðahraun þar sem mörkin þar á milli virðast ekki liggja nákvæmlega fyrir. 

Fyrirhuguð veglagning og friðlýsing í Gálgahrauni.
Fyrirhuguð veglagning og friðlýsing í Gálgahrauni.
Mótmælandi borinn út af vinnusvæðinu vegna nýs Álftanesvegar síðastliðinn mánudag
Mótmælandi borinn út af vinnusvæðinu vegna nýs Álftanesvegar síðastliðinn mánudag mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert