„Ég stend hér fyrir hönd álfanna“

„Ég er í þessari baráttu fyrir hönd álfanna, náttúruveranna hérna,“ segir Ragnhildur Jónsdóttir í samtali við mbl.is en hún hefur tekið virkan þátt í mótmælunum gegn lagningu nýs Álftanesvegar frá því að framkvæmdir hófust aftur á mánudaginn fyrir viku. Mótmælendur ætla að funda með Gunnari Einarssyni, bæjarstjóra Garðabæjar, í hádeginu í dag og ætlar Ragnhildur að afhenda honum af því tilefni bréf þar sem áhyggjum álfa á svæðinu af framkvæmdunum er komið á framfæri.

„Ég hef aldrei staðið í mótmælum áður og hélt aldrei að ég ætti eftir að mæta hérna á hverjum morgni til þess að mótmæla,“ segir Ragnhildur. Hins vegar hafi aðkoma hennar að málinu hafist í október fyrir ári þegar álfar hafi kallað hana út að álfakirkju í hrauninu sem fer undir veginn að hennar sögn haldi framkvæmdir áfram. „Þeir kölluðu á mig þangað álfarnir og voru mjög áhyggjufullir. Það ómaði um hraunið að þetta mætti ekki skemma. Ég varð hreinlega fyrir miklum áhrifum frá þessu neyðarkalli frá þeim.“

Ragnhildur segir þetta vera meginástæðu hennar fyrir því að taka þátt í mótmælunum en einnig hefðbundna náttúruvernd. Þeir sem taki þátt í mótmælunum geri það hver á sínum forsendum og þetta sé hennar nálgun á málinu. „Ég stend hér fyrir hönd álfanna því þeir sjást ekki nógu vel.“ Hún segist ekki hafa talað mikið um þetta enda gjarnan hent gaman að slíku. „En nú er mælirinn bara fullur. Það er búið að handtaka mig tvisvar vegna þessa máls og nú er mælirinn bara fullur og langt umfram það.“

Ragnhildur Jónsdóttir.
Ragnhildur Jónsdóttir. Morgunblaðið/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert