Stálu 43 kílóum af íslenskum laxi

Starfsmenn vöruhúss við JFK flugvöllinn í New York ætluðu að …
Starfsmenn vöruhúss við JFK flugvöllinn í New York ætluðu að græða á íslenska laxinum. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Lögregla í New York rannsakar nú fiskþjófnað á JKF flugvellinum í New York. Tveir menn voru handteknir á laugardag, en talið er að þeir hafi stolið 96 pundum eða rúmum 43 kílóum af íslenskum laxi frá vöruhúsi við flugvöllinn.

Á fréttavef ABC er greint frá því að mennirnir vinni fyrir Icelandic Air og hafi verið gripnir við að hlaða fisknum í leyfisleysi á bíla í þeirra eigu. Hér verður að áætla að um fyrirtækið Icelandair sé að ræða, þó nafnið sé ekki rétt í fréttinni. Icelandair hefur flogið til JFK flugvallarins í New York í rúm 65 ár.

Að sögn Guðjón Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, eru mennirnir ekki starfsmenn fyrirtækisins. Icelandair flytur íslenskan fisk til Bandaríkjanna og er hann meðal annars geymdur í þessu vöruhúsi. Guðjón segir að viðtakandi fisksins hafi grunað að rýrnun hefði orðið og kom þá í ljós að tveir starfsmenn vöruhússins höfðu flutt fisk á milli kassa.

Í frétt ABC segir meðal annars að mennirnir hafi verið ákærðir fyrir þjófnað. Laxinn má selja fyrir um 5 dollara pundið, eða tæpar 58 þúsund krónur fyrir 96 pund.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert