Ekki nóg að horfa bara á tekjuhliðina

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þar þarf ekki hvað síst að líta til þess hver yrðu áhrifin á lagningu sæstrengs hér innanlands. Áhrif á verð til dæmis til neytenda á Íslandi og áhrif á möguleika okkar á að skapa störf hér innanlands. Svoleiðis að það er ekki nóg að líta bara á tekjuhliðina, hversu miklar tekjur eða hversu mikill hagnaður gæti fengist á pappírnum af slíkum sæstreng. Við þurfum líka að líta til áhrifa hér innanlands.“

Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, þar sem hún gerði að umtalsefni sínu hugmyndir um mögulega raforkusölu til Bretlands í gegnum sæstreng og fréttir þess efnis að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ætlaði að hvetja breska fjárfesta til þess að leggja málinu lið sitt á ráðstefnu sem nú stendur yfir í Bretlandi. Benti hún meðal annars á að til þess að slíkt gæti gengið upp yrði væntanlega að fara út í frekari virkjanaframkvæmdir hér á landi.

Sigmundur sagði að sér skildist að fréttir þess efnis að forsetinn hafi ætlað að beita sér með þeim hætti og haft orð á því hafi verið bornar til baka. Hins vegar væri ljóst að mikill áhugi væri á málinu í Bretlandi. „Það er hins vegar alveg ljóst að það er mjög mikill áhugi á þessum hugmyndum, ekki hvað síst í Bretlandi. Á fundum með breskum ráðamönnum fyrir fáeinum vikum fór það ekki á milli mála,“ sagði Sigmundur Davíð. „En að sjálfsögðu munum við fara fara yfir þetta hér í þinginu og meta út frá hagsmunum Íslands.“

Katrín að margt þyrfti að skoða í þessu sambandi eins og til að mynda atvinnusköpun, afhendingaröryggi innanlands sem og hversu mikil umframorka væri í raforkukerfi Íslands. Brýndi hún forsætisráðherra í að beita sér fyrir því að vinna færi af stað við að leggja mat á málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert