Flestir vilja þjóðarsátt á vinnumarkaði

Ný könnun Capacent Gallup fyrir Samtök atvinnulífsins leiðir í ljós að 66,3% landsmanna, eða tveir af hverjum þremur eru hlynntir því að gerð verði þjóðarsátt á vinnumarkaði, þar sem lögð yrði meiri áhersla á stöðugt verðlag og stöðugt gengi krónunnar en í stað þess lögð minni áhersla á launahækkanir. Tæp 17% landsmanna eru andvíg þessari leið og jafn stór hópur er hvorki hlynntur né andvígur slíkri þjóðarsátt. 

Spurt var eftirfarandi spurningar:

 Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) gerð þjóðarsáttar/samnings milli stéttarfélaga, atvinnurekenda og stjórnvalda þar sem lögð yrði meiri áhersla á stöðugt verðlag og stöðugt gengi krónunnar en í stað þess lögð minni áhersla á launahækkanir.

 Helmingur svarenda var spurður um gerð samnings milli stéttarfélaga, atvinnurekenda og  stjórnvalda en hinn helmingur svarenda var spurður um afstöðu til þjóðarsáttar milli fyrrnefndra aðila. Ekki reyndist marktækur munur á svörum eftir því hvort spurt var um þjóðarsátt eða samning.   

 19,1% sögðust vera alfarið hlynnt að þessi leið væri farin, 21,3% mjög hlynnt, 25,9% frekar hlynnt, 16,8% svöruðu hvorki hlynnt né andvíg, 9,3% sögðust frekar andvíg, 4,1% mjög andvíg og 3,5% alfarið andvíg.

 Könnunin fór fram 10.-27. október en um var að ræða netkönnun. Könnunin var send til 2.950 manns á öllu landinu, 18 ára og eldri sem voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Capacent Gallup. Fjöldi svarenda var 1.771 og svarhlutfall því 60%. Af þeim tóku 86,5% afstöðu til spurningarinnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert