Styrmir Þór fékk eins árs dóm

Styrmir Þór Bragason
Styrmir Þór Bragason mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Hæstiréttur dæmdi í dag Styrmir Þór Bragason, fyrrverandi forstjóri MP banka, í eins árs fangelsi í svokölluðu Exeter-máli. Hæstiréttur sneri þar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem sýknaði Styrmi af ákæru fyrr á þessu ári.

Þetta er í annað sinn sem Hæstiréttur fjallar um þátt Styrmis í Exeter-málinu. Styrmir Þór var ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byrs, og Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri. Styrmir var á þessum tíma forstjóri MP Banka. Hann var sakaður um að hafa ásamt þeim Jóni og Ragnari lagt á ráðin um að fé yrði greitt úr sjóðum Byrs sparisjóðs til að fjármagna kaup á stofnfjárbréfum í október 2008.

Jón Þorsteinn og Ragnar voru dæmdir í fjögurra og hálfs árs fangelsi. Hæstiréttur vísaði hins vegar þætti Styrmis aftur til Héraðsdóms. Í janúar var Styrmir sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur, en Hæstiréttur komst hins vegar að annarri niðurstöðu í dag.

Styrmir var sakaður um að hafa ákveðið gengi hlutabréfa hinum umdeildu viðskiptum ásamt Jóni og Ragnari og hafa haft milligöngu um að einkahlutafélagið Tæknisetrið Arkea (sem síðar varð Exeter Holding) keypti stofnfjárbréfin á því verði sem hann hafði ákveðið ásamt meðákærðu, með 800 milljón króna yfirdráttarláni Byrs annars vegar og 43.916.385 króna fjármögnun MP Banka hins vegar.

Þá seldi MP Banki Tæknisetrinu Arkea einnig 119.244.757 stofnfjárhluti í Byr sparisjóði í þessum viðskiptum og voru kaupin fjármögnuð á sama hátt, með yfirdráttarláni Byrs sparisjóðs. Sérstakur saksóknari hélt því fram í ákæru að með þessu hafi tjónshættu MP Banka vegna lánanna verið komið yfir á Byr sparisjóð.

Hafið yfir skynsamlegan vafa

Dómur Hæstaréttar er ítarlegur en dómurinn telur að það sé „hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði tók ekki síður þátt í því en X og Y [Jón og Ragnar] að leggja á ráðin um hvernig standa skyldi að lánveitingunni frá Byr sparisjóði til Tæknisetursins Arkea ehf. til kaupa á stofnfjárbréfum í sparisjóðnum. Með þeim viðskiptum, sem voru að langstærstum hluta fjármögnuð af sparisjóðnum, var málum komið þannig fyrir að áhættu á tjóni vegna bréfanna, sem áður hafði hvílt á MP fjárfestingarbanka hf. þar sem ákærði var framkvæmdastjóri, var velt yfir á sparisjóðinn. Þannig fékk bankinn kröfur sínar á hendur eigendum stofnfjárbréfanna greiddar að fullu um leið og eigendurnir, þar á meðal X og félag sem Y átti verulegan hlut í, losnuðu undan þeim skuldbindingum. Að auki seldi bankinn sín eigin bréf á verði sem eins og áður greinir tók ekki mið af raunverulegu verðmæti þeirra á þessum tíma. Að virtri þeirri vitneskju, sem ákærði bjó yfir og áður hefur verið lýst, menntun hans og þekkingu á starfsemi banka og annarra lánastofnana verður því fallist á með ákæruvaldinu að ákærða hafi ekki getað dulist að lánveiting Byrs sparisjóðs til Tæknisetursins Arkea ehf. 13. október 2008 hafi verið ólögmæt og til þess fallin að valda sparisjóðnum verulegri fjártjónshættu, enda kom á daginn að féð sem félaginu var lánað er sjóðnum glatað.“

Fimm dómarar dæmdu í málinu í Hæstarétti og voru einróma í niðurstöðu sinni. Styrmir þarf að greiða allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 1.909.094 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum samtals 1.255.000 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert