Mikill hiti í skrokk skipsins

Varðskipið Þór hefur nú unnið að björgun flutningaskipsins Fernöndu í …
Varðskipið Þór hefur nú unnið að björgun flutningaskipsins Fernöndu í á þriðja sólarhring. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Mikill hiti er í skrokk flutningaskipsins Fernöndu, sem varðskipið Þór dregur nú í togi út Faxaflóa. Áhöfn Þórs og slökkviliðsmenn um borð sannreyndu þetta í kvöld. Í nótt verður skipinu því haldið á rólegri ferð, í þeirri von að síður skipsskrokksins kólni og það haldist á floti.

Staðan verður endurmetin í birtingu í fyrramálið, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni. Nokkur vindur er nú á svæðinu.

Skipið verður dregið á svæði vestur af Faxaflóa þar sem það telst fjarri hrygningarstofnum og veiðisvæðum, samkvæmt upplýsingum Hafrannsóknarstofnunar. Þá er allnokkuð dýpi á þessum slóðum.

Staðsetningin sem stefnt er að er í samræmi við ákvörðun sem tekin var á samráðsfundi Landhelgisgæslu, Hafrannsóknarstofnunar, Samgöngustofu og Umhverfisstofnunar fyrr í dag, með það fyrir augum að forðast umhverfisslys en um leið tryggja sem best öryggi þeirra sem starfa á vettvangi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert