Skipið hugsanlega látið brenna

Varðskipið Þór tók þátt í slökkvistörfum í morgun, en dró …
Varðskipið Þór tók þátt í slökkvistörfum í morgun, en dró síðan Fernöndu út úr höfninni. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Til skoðunar er að reyna ekki frekar að slökkva eld í flutningaskipinu Fernanda og leyfa því að brenna. Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri segir að langan tíma geti tekið fyrir eldinn að deyja út. Stjórnvöld eru að meta hvar sé best að fara með skipið.

Nú stendur yfir samráðsfundur í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar með fulltrúum Landhelgisgæslu, Samgöngustofu, Hafrannsóknarstofnunar og Umhverfisstofnunar þar sem verið er að endurmeta aftur stöðuna.  Flutningaskipið Fernanda er orðið umtalsvert laskað og því er gert ráð fyrir að finna stað sem fyrst til að koma skipinu á þar sem unnt er að halda slökkvistörfum áfram og láta þau efni sem þegar er kominn eldur í brenna upp, en um leið verja aðaltanka skipsins eins og kostur er en í skipinu eru um 100 tonn af olíu, eins og segir í fréttatilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Jón Viðar sagði eftir hádegið í dag að ekki lægi fyrir ákvörðun um næstu skref. Hann sagði mjög erfitt að slökkva eld í skipi þegar eldur væri kominn um allt skip. Staðan væri ekki lengur sú að menn væru að bjarga einhverjum verðmætum heldur að slökkva eld í brotajárni. Við þær aðstæður væri forgangsmál að tryggja öryggi slökkviliðsmanna.

Jón Viðar sagði að það væri þekkt að menn tækju ákvörðun að leyfa eldi í ónýtu skipi að deyja út án þess að reynt væri að slökkva eldinn.

Jón Viðar sagðist ekki telja að gerð hefðu verið mistök með því að draga skipið til Hafnarfjarðar. Hann sagði að hafa yrði í huga að menn væru að taka ákvarðanir út frá takmörkuðum upplýsingum. Þegar byrjað var að slökkva eldinn og róta í skipinu hefði eldurinn magnast og því hefði verið tekin ákvörðun um að hætta slökkvistörfum og draga skipið í burtu, bæði til að tryggja öryggi slökkviliðsmanna og einnig út frá hagsmunum íbúa sem fengu reyk yfir sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert