Bændur uggandi vegna banns

Nokkurrar óánægju gætir nú meðal þeirra bænda sem stunda lífræna ræktun hér á landi, en þeir geta ekki lengur notað svokallaðan rotmassa frá Flúðasveppum sem áburð. Að sögn Þórðar Halldórssonar, formanns Félags framleiðenda í lífrænum búskap, varð áburðurinn fyrir valinu vegna gæða hans.

Áburðurinn er að mestu kominn frá Flúðasveppum, en rotmassinn er sá jarðvegur sem Flúðasveppir spretta úr. Notkun bændanna á áburðinum hefur verið á undanþágu í langan tíma, en samkvæmt evrópskum lögum og reglugerðum sem gilda hér á landi má ekki nota áburðinn. Að sögn Þórðar er það annars vegar vegna þess að ekki er alltaf hægt að sannreyna að fóður hænsnanna sé ekki erfðabreytt og hins vegar vegna þrengslabúskapar.

Þórður segir að þegar einn tegund sé bönnuð, þá þurfi að sækja um undanþágu fyrir annarri. „Veruleikinn er sá að í lífrænni ræktun eigum við að nota hráefni af réttum uppruna en þar sem þróun í lífrænni ræktun á Íslandi er svo hæg, þá höfum við ekki aðgang að vottuðu hráefni og búum því alltaf við undanþágur,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Fisk- og þörungamjöl hefur verið lagt til sem hugsanlegur arftaki rotmassans, en hingað til hafa sumir bændur notað það sem viðbótaráburð. „Einhæf notkun eyðileggur jarðveginn,“ segir Þórður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert