Aldrei fleiri heima- og frítímaslys

Á bráða- og slysadeild Landspítala í Fossvogi.
Á bráða- og slysadeild Landspítala í Fossvogi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Á síðasta ári tók bráðasvið Landspítalans 16.606 sinnum á móti fólki sem slasast hafði í heimahúsum eða frístundum. Slys af þessu tagi hafa aldrei verið fleiri miðað við mannfjölda, og er þetta jafnframt bróðurpartur eða um 44% allra slysa á Íslandi. Umferðarslys eru næstalgengust, 19,8%.

Þetta kemur fram í Slysaskrá Íslands. Fjallað er um þessa auknu slysatíðni í nýjasta Talnabrunni Landlæknisembættisins, þar sem fram kemur að nánari rannsókn á tildrögum, tegund og alvarleika slysanna sé nauðsynleg til að hægt sé að koma á fót forvarnarstarfi til að snúa þessari þróun við. 

Banaslys í heimahúsum og frístundum

Sex Íslendingar létu lífið af slysförum í heimahúsi eða frístundum árið 2012.

Allt frá því skráning í Slysaskrá Íslands hófst árið 2002 hafa heima- og frítímaslys verið algengust allra skráðra slysa, eða um helmingur. Rannsóknir benda til að flestar komur vegna meiðsla á bráðadeildir sjúkrahúsa í Evrópu séu vegna heima- og frítímaslysa, samkvæmt Talnabrunni landlæknis. Auk þess eru það heima- og frístundaslys sem oftast leiða til innlagnar á sjúkrahús.

Hér á Íslandi hefur þeim fjölgað síðastliðinn áratug, úr 38 slysum í 44 slys á hverja 1.000 íbúa á árunum 2003-2012. 

Mest aukning hjá ungum börnum og öldruðum

Mest er aukningin hjá yngstu og elstu Íslendingunum. Meðal yngstu borgaranna er hættan á heima- og frítímaslysum mest hjá börnum yngri en 5 ára og hefur slysum fjölgað einna mest í þeim aldurshópi, eða úr 67 í 83 slys á hver 1.000 börn á þessum aldri.

Fleiri drengir en stúlkur slasast með þessum hættu. 92 af hverjum 1.000 drengjum undir 5 ára aldri urðu fyrir slysi í heimahúsi eða frístundum árið 2012, samanborið við 72 af hverjum 1.000 drengjum árið 2003.  Slysum meðal stúlkna undir 5 ára aldri hefur fjölgað úr 62 í 74 á hverjar 1.000 á tímabilinu.

Slysatíðni aldraðra hefur einnig aukist verulega, en þar er kynjadreifingin önnur en í yngsta aldurshópnum því aldraðar konur eru líklegri en karlar til að verða fyrir heima- og frítímaslysum.

Þá hefur tíðni slysa meðal kvenna 80 ára og eldri aukist verulega á síðasta áratug, úr 62 í 80 á hverja 1.000 íbúa árið 2012.

Sjá nánar í Talnabrunni landlæknis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert