Alltaf ljóst að Kaupþing myndi lána

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, segir að það hafi verið ákveðið strax í upphafi þegar rætt var um kaup Al-Thanis á hlut í Kaupþingi, að viðskiptin yrðu gerð með fjármögnun Kaupþings. Hann sagði að viðskiptin hefðu verið hagstæð fyrir bankann og staða bankans væri 3,5 milljörðum betri en ef þessi viðskipti hefðu aldrei átt sér stað.

Hreiðar Már rakti við skýrslutöku í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag aðdragenda málsins. Viðræður hefðu farið fram við fjármálaráðherra Katar á árinu 2007 án þess að þær hefðu leitt til niðurstöðu. Í framhaldi hefðu hafist viðræður um að olíusjóður Katar keypti hlut í Kaupþingi. Viðræðurnar hefðu runnið út í sandinn vegna þess að stjórnendur sjóðsins kröfðust þess að fá verulegan afslátt af kaupverðinu. Hreiðar sagði slíkan afslátt ekki óþekktan þegar nýir fjárfestar keyptu sig inn í fjármálafyrirtæki, en sá afsláttur sem sjóðurinn fór fram á hafi verið allt of mikill.

Hugmyndin um beina aðkomu Al-Thanis kom frá Hreiðari

Hreiðar sagði að í framhaldinu hefði hann komið með þá hugmynd til Ólafs Ólafssonar, sem var hluthafi í Kaupþingi, að kanna hvort Al-Thani vildi í eigin nafni kaupa hlut í bankanum. Þetta hefði síðan orðið niðurstaðan, en viðskiptin voru tilkynnt tveimur vikum áður en Kaupþing féll haustið 2008. Hreiðar sagði að á þessum tíma hefði Ólafur um nokkurt skeið unnið að stofnun fjárfestingarsjóðs með tveimur öðrum fjárfestum í Katar.

Hreiðar sagði að alveg frá upphafi hefði legið fyrir að fjárfesting Al-Thanis yrði fjármögnuð af Kaupþingi. Viðskiptin fólu í sér kaup á 5,01% hlut í bankanum fyrir 200 milljónir dollara, en Al-Thani lagði fram sjálfskuldarábyrgð fyrir 50 milljónir dollara.

Hreiðar sagðist hafa verið þeirrar skoðunar að um hagstæð viðskipti væri að ræða fyrir Kaupþing. Katar væri gríðarleg ríkt ríki, stöðugt innstreymi hafi verið inn á netreikning Kaupþings og stefnt hefði verið að því að í kjölfarið hæfust frekar viðskipti við Katar. Hreiðar sagðist muna vel eftir því að hann hefði glaðst yfir því 16. september 2008, þegar ljóst var að það yrði af þessum viðskiptum þrátt fyrir að ólga væri á mörkuðum.

Mistök gerð við frágang viðskiptanna

Hreiðar sagðist 19. september hafa gefið þremur viðskiptastjórum Kaupþings fyrirmæli um að ganga frá viðskiptunum við Al-Thani. Þar með hefði sinni aðkomu að viðskiptunum verið lokið, að öðru leyti en því að svara spurningum fjölmiðla um viðskiptin þegar þau voru tilkynnt opinberlega. Hreiðar sagðist hins vegar hafa komist að því eftir að bankinn féll að mistök hefðu verið gerð við frágang viðskiptanna. Hann sagðist með þessum orðum ekki vera að varpa ábyrgð á aðra.

Hreiðar Már sagðist ekki hafa vitað um nöfn þeirra félaga sem stóðu að baki viðskiptunum, þar á m.a. félaginu Gerland, sem var í eigu Ólafs Ólafssonar. Viðskiptaskjöl voru óundirrituð þegar bankinn féll. Hreiðar sagðist ekki geta skýrt hvers vegna ekki var búið að ganga formlega frá þeim. Mikið hefði verið að gera í bankanum á þessum tíma og þetta gæti hafa fallið milli skips og bryggju. Það hefði verið nægur tími til að klára málið í lánanefnd en það hefði ekki verið gert.

Hreiðar Már vísaði því alfarið á bug að hann eða aðrir stjórnendur Kaupþings hefðu reynt að blekkja markaðinn með þessum viðskiptum. Staðið hefði verið rétt að öllum tilkynningum til Kauphallarinnar og fjölmiðla. Hann tók fram að ekki hefði verið nein skylda að upplýsa um aðkomu Ólafs Ólafssonar að viðskiptunum.

Olíusjóðurinn vildi fá mikinn afslátt af kaupverðinu

Björn Þorvaldsson saksóknari birti í réttarhaldinu tölvupóst þar sem fram kemur að olíusjóður Katar var tilbúinn til að greiða 399 kr. fyrir hlut í Kaupþingi, en gengi bréfanna var um helmingi hærra á þessum tíma. Hann spurði Hreiðar hvers vegna Al-Thani hefði verið tilbúinn til að borga miklu hærra verð en olíusjóðurinn var tilbúinn að greiða. Hreiðar sagðist ekki geta svarað því.

Saksóknari spurði Hreiðar ýtarlega um hvers vegna ekki hefði verið búið að ganga formlega frá lánveitingunum til Al-Thani þegar viðskiptin voru gerð opinber og tilkynnt til Kauphallarinnar. Hreiðar sagði að samkvæmt reglum Kauphallarinnar yrði að upplýsa um viðskiptin strax. Bankinn hefði ekki getað beðið með að upplýsa um þau þó að formleg lánveiting hefði ekki verið frágengin.

Sagði að bankinn ætti þessa peninga ekki á lausu

Við réttarhaldið var spiluð upptaka af samtali milli tveggja viðskiptastjóra Kaupþings, en samtalið átti sér stað í framhaldi af fundi Hreiðars Más með þremur viðskiptastjórum þar sem hann gaf fyrirmæli um hvernig ætti að standa að viðskiptunum með hlutabréfin. Í samtalinu kom fram að 200 milljónir dollara ætti að lána úr bankanum vegna viðskiptanna og 50 milljónir að koma inn í hann. Í samtalinu segir Halldór Sveinn Kristinsson, starfsmaður Kaupþings, að bankinn eigi ekki laust fé upp á 200 milljónir dollara til að lána vegna viðskiptanna.

Hreiðar sagði í réttarhaldinu í dag að í reynd hefðu engin fjármunir farið úr bankanum í þessum viðskiptum. Hann hafi hins vegar ekki getað „gert þetta öðruvísi“ en með þeim hætti sem gert var. Þessi viðskipti hefðu verið gerð með mjög sambærilegum hætti og tugir annarra viðskipta sem bankinn hefði staðið að.

Al-Thani vissi ekki um beina aðkomu Ólafs að viðskiptunum

Hreiðar var sérstaklega spurður um aðkomu Ólafs Ólafssonar í gegnum félagið Gerland. Hreiðar sagði að hafa þyrfti í huga að Ólafur hefði ætlað að stofna fjárfestingasjóð í Katar, m.a. með aðkomu fleiri aðila. Hreiðar sagðist hafa talið skynsamlegt að nota þann „strúktúr“ sem búið var að setja upp þegar ráðist var í þessi viðskipti við Al-Thani. Hann sagðist hafa talið að það myndi auka líkur á að Al-Thani myndi samþykkja viðskiptin. Þetta væri eina ástæðan fyrir því að Ólafur hefði blandast inn í þessi viðskipti með beinum hætti.

Al-Thani hefur hins vegar sagt í skýrslutöku hjá saksóknara að hann hafi ekki vitað um beina aðkomu Ólafs. Hreiðar sagði að þetta hefði komið sér mjög á óvart og hann gæti ekki skýrt þetta.

Taldi óþarft að upplýsa um aðild Ólafs að viðskiptunum

Björn saksóknari þráspurði Hreiðar hvort ekki hefði verið skylda að flagga aðild Ólafs að viðskiptunum, þ.e. láta þetta koma fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Hreiðar sagði að það hefði ekki verið skylda að geta um aðild Ólafs.

Björn birti þá samtöl þar sem Bjarnfreður Ólafsson og Eggert Jónas Hilmarsson, undirmenn Hreiðars, ræða um hvort nauðsynlegt hafi verið að flagga viðskiptum Ólafs. Fram kemur í samtalinu að reynt hafi verið að hafa þetta „eins fjarlægt eins og hægt er til að forðast flöggunarskylduna.“ Einnig kom fram að Kauphöllin og Fjármálaeftirlitið kynnu að hafa annað mat á flöggunarskyldunni en Kaupþing.

Hreiðar sagði aðspurður að hann teldi ekkert óeðlilegt við þá tilkynningu sem send var Kauphöllinni um viðskiptin. Hann hafnaði því ennfremur að hann hefði í viðtölum við fjölmiðla í kjölfarið blekkt almenning. Hann sagði að ekki væri venja í slíkum tilkynningum að geta um hvernig viðskiptin væru fjármögnuð og það hefði því ekki komið fram að Kaupþing lánaði kaupverðið.

Björn vakti athygli á því að eftir að viðskiptin voru tilkynnt hækkaði gengi hlutabréfanna á tveimur dögum úr 682 kr. í 737 kr.

Taldi lausafjárstöðu Kaupþings vera góða

Hreiðar sagði aðspurður að lausafjárstaða Kaupþings hefði á þessum tíma, um miðjan september 2008, verið góð. Saksóknari sýndi í réttarhaldinu tölvupósta frá undirmönnum Hreiðars í Kaupþingi, þar sem þeir lýsa miklum áhyggjum af lausafjárstöðunni og tala um krísu í því sambandi. Hreiðar sagði að þessir starfsmenn hefðu ekki haft heildarmyndina fyrir sér og lausafjárstaðan hefði verið betri en þeir voru með upplýsingar um.

Björn spurði Hreiðar hvort með lánveitingunum til Al-Thanis hefði Kaupþing verið að greiða fyrirfram arð. Hreiðar vísaði því alfarið á bug. Ekkert slíkt hefði verið í spilunum. Aðspurður um ávinning Ólafs af viðskiptunum sagði Hreiðar að ávinningur hans hefði verið að koma á viðskiptum við ríkasta mann í heimi, sem vonandi myndu aukast í kjölfarið.

Ólafur Ólafsson, aðaleigandi Samskipa, og Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, …
Ólafur Ólafsson, aðaleigandi Samskipa, og Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, voru mættir í Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun er aðalmeðferð í Al-Thani-málinu hófst. mbl.is/Rósa Braga
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert