Leggst gegn banni við umskurði drengja

Gyðingapresturinn Berel Pewzner
Gyðingapresturinn Berel Pewzner Skjáskot/Youtube

Gyðingapresturinn Berel Pewzner, sem hefur aðsetur í Reykjavík, leggst gegn banni við umskurði ungra drengja hér á landi. Hann segir að aðgerðin sé algjörlega örugg og skilur ekki í því að íslensk stjórnvöld skuli beita sér gegn helgisiðum gyðinga.

Þetta kemur fram í vefritinu Vice þar sem rætt er bæði við Pewzner og Margréti Maríu Sigurðardóttur, umboðsmann barna, um umskurð á ungum drengjum en eins og fram kom á mbl.is snemma í október skrifuðu umboðsmenn barna á Norðurlöndum og ýmsir heilbrigðisstarfsmenn undir samnorræna yfirlýsingu gegn umskurði ungra drengja. Þeir sem skrifuðu undir telja brýnt að vinna að því að banna umskurð á ungum drengjum.

Þá ber að nefna að umskurði drengja á Barnaspítala Hringsins var hætt árið 2011. „Helstu heilbrigðisstarfsmenn á Íslandi, sem einnig skrifuðu undir yfirlýsinguna, telja að umskurður þeirra sem ekki geta gefið samþykki sitt brjóti gegn grundvallar lögmálum læknisfræðinnar, það er að segja nema að aðgerðin sé í lækningalegum tilgangi,“ segir Margrét María í samtali við Vice.

Í yfirlýsingunni eru ríkisstjórnir á öllum Norðurlöndum hvattar til þess að stuðla að fræðslu um réttindi barna og þá áhættu sem fylgir umskurði. Ennfremur eru þær hvattar þess að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að drengir fái sjálfir að ákveða hvort þeir vilji láta umskera sig þegar þeir hafa aldur og þroska til.

Pewzner segist alfarið leggjast gegn banni við umskurði en hann gegnir mikilvægu hlutverki í samfélagi gyðinga á Íslandi, sem samkvæmt Vice telur um hundrað manns. „Sá helgisiður að umskera unga drengi hefur mætt aukinni gagnrýni í Skandínavíu, bæði af vinstri og hægri mönnum sem vaða um í veraldarhyggju og óttast áhrif múslímskra innflytjenda.“

Umskurður drengja.
Umskurður drengja.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert