Afklæddur og settur í svartan ruslapoka

Fangaklefi á Litla Hrauni.
Fangaklefi á Litla Hrauni. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur hefur staðfest áframhaldandi gæsluvarðhald yfir Davíð Frey Magnússyni sem ásamt fleirum hefur verið ákærður fyrir frelsissviptingu og stórfelldar líkamsárásir. Meðal annars var fórnarlambið afklætt, sett í svartan ruslapoka, keflað og bundið við staur í kjallara húss. Að svo búnu yfirgáfu árásarmenn það.

Málið á hendur Davíð, Stefáni Loga Sívarssyni, Stefáni Blackburn, Hinriki Geir Helgasyni og Gísla Þór Gunnarssyni var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 15. október síðastliðinn og neituðu allir sök. Fyrirtaka er í málinu á morgun.

Davíð Freyr verður í gæsluvarðhaldi til alla vega 27. nóvember næstkomandi. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var af Hæstarétti, segir: „Ákærði er undir sterkum grun um að hafa framið þau brot sem honum eru gefin að sök og geta þau varðað meira en 10 ára fangelsi. Er því fullnægt skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um alvarleika brots. Að auki eru brotin þess eðlis að fallast verður á það með ríkissaksóknara að það kunni að særa réttarvitund almennings fái ákærði að vera frjáls ferða sinna.“

Í greinargerð ríkissaksóknara segir að við árásina á umrætt fórnarlamb, sem er ungur karlmaður, hafi verið notast við kylfur, hnífa, skrúfjárn, notaðar sprautunálar og tangir, auk þess sem kveikt hafi verið í líkama brotaþola með því að notast við rakspíra. Hafi umræddum tækjum verið beitt með hættulegri aðferð en kylfuhögg hafi beinst m.a. að höfði og hefði árásin því hæglega getað haft alvarlegt líkamstjón í för með sér. Þá sé enn hætta á að brotaþoli hafi smitast af alvarlegum smitsjúkdómum, en hann hafi verið stunginn með notuðum sprautunálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert