Bergur Már játaði tvær árásir

Viðbúnaður í Héraðsdómi Reykjaness þegar aðalmeðferð í máli tímenninganna fór …
Viðbúnaður í Héraðsdómi Reykjaness þegar aðalmeðferð í máli tímenninganna fór fram.

Bergur Már Ágústsson, margdæmdur glæpamaður, játaði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun tvær líkamsárásir sem gerðar voru með stuttu millibili 4. janúar 2012. Árásirnar voru kveikjan að árás á hann sjálfan síðar sama dag en fyrir hana hlutu meðal annars Annþór Kristján Karlsson og Börkur Birgisson sjö og sex ára fangelsi.

Í ákæru segir að Bergur Már hafi við anddyri fjölbýlishúss í Vesturbergi í Reykjavík slegið karlmann í höfuðið með kylfu með þeim afleiðingum að sá hlaut opið sár á höfði. Skömmu eftir það sló hann kylfunni í rúðu í anddyri fjölbýlishússins með þeim afleiðingum að rúðan brotnaði og glerbrot höfnuðu í andliti og auga annars karlmanns sem stóð innandyra. Hlaut sá blæðingu undir táru og sár í hvítu vinstra augans.

Báðar árásirnar eru taldar sérstaklega hættulegar.

Fórnarlömbin fóru að sækja bætur

Við aðalmeðferð í hinu árásarmálinu kom fram að maðurinn sem varð fyrir högginu fór ásamt hinum á slysadeild. Þeir hringdu nokkur símtöl og varð úr að þeir ætluðu að heimsækja Berg Má á heimili hans í Mosfellsbæ. Tilgangurinn var að ræða við hann um bætur vegna árásarinnar.

Um slíkar bætur sagði Annþór Kristján: „Þetta gengur svona fyrir sig í þessum heimi, ef menn eru beittir órétti þá eru borgaðar bætur. [...] Það er venjan að menn fari til þess sem gerði á hlut manns og fái greitt.“

Tíu menn hlutu dóma fyrir árásina á Berg Má. Þyngstu dómana hlutu Annþór og Börkur en að auki voru þeir Smári Valgeirsson og Jón Ólafur Róbertsson dæmdir í tveggja ára fangelsi fyrir aðild sína að málunum. Aðrir hlutu styttri dóma, eða 15 til 18 mánuði.

Hæstiréttur staðfesti svo nýverið dómana yfir Annþóri og Berki. Var það þrátt fyrir að Bergur Már hefði gefið nýja skýrslu eftir að dómur féll í héraði. Sagðist hann þá hafa heimilað að mönnunum yrði hleypt inn í íbúð sína. „Þetta er mjög mikilvægt atriði vegna þess að héraðsdómur hafnaði því að þetta væri tilfellið. Hann hefði ekki heimilað að hleypa þeim inn,“ sagði verjandi Annþórs fyrir Hæstarétti. Bergur sagði þá einni að Annþór hefði ekki beitt neinu ofbeldi og að árásin hefði ekki verið skipulögð af Annþóri og Berki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert