Lögð í einelti með Snapchat

Snapchat er mikið notað - sumir misnota það til að …
Snapchat er mikið notað - sumir misnota það til að leggja aðra í einelti.

Samskiptasíður og skyndiskilaboð eru algengasti farvegur íslenskra barna fyrir einelti á netinu. Yfir helmingur þeirra sem höfðu orðið fyrir einelti sögðu að eineltið hefði átt sér stað á samskiptasíðum eins og Facebook og rúmlega 36% sögðu að það hefði átt sér stað í skyndiskilaboðum eins og Snapchat.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum könnunar sem SAFT stóð nýverið fyrir á netnotkun barna og unglinga hér á landi.

Í könnuninni voru þátttakendur m.a. spurðir um ýmislegt er varðar einelti með sérstakri áherslu á netið og farsíma. 

Líklegra að börn verði fyrir einelti í skólanum en á netinu

Þegar börnin voru spurð hvort þau hefðu sjálf orðið fyrir einelti þ.e. verið strítt, áreitt, ógnað eða skilin útundan, ýmist í skólanum, á netinu eða gegnum farsíma, kom í ljós að fleiri höfðu orðið fyrir einelti í skólanum en á netinu. Rúmlega 19% sögðust hafa orðið fyrir einelti í skólanum eða á meðan skólastarf stóð yfir á sl. 12 mánuðum, þar af 7,8% einu sinni í mánuði eða oftar. Ekki var marktækur munur á svörum eftir því hvort um var að ræða stelpu eða strák eða hversu gömul börnin voru.

Þegar kom að einelti á netinu sögðust 9% aðspurðra hafa orðið fyrir einelti á netinu einhvern tíma á sl. 12 mánuðum.  Þar af sögðust 1,9% hafa orðið fyrir því einu sinni í mánuði eða oftar og 7% sjaldnar eða tilgreindu ekki hversu oft  þau höfðu orðið fyrir einelti á netinu. Ekki var marktækur munur á svörum eftir því hvort um var að ræða stelpu eða strák eða hversu gömul börnin voru.

Þegar litið er til nágrannalanda okkar kemur í ljós að við erum á svipuðu róli og þau þegar kemur að einelti á netinu. Samkvæmt niðurstöðum EU kids online könnunarinnar sem gerð var 2009-2011 í 25 Evrópulöndum (þó ekki á Íslandi) kom í ljós að hlutfall barna og unglinga sem orðið höfðu fyrir einelti á netinu var 12% í Danmörku, 11% í Svíþjóð og 8% í Noregi. Hlutfall barna sem orðið höfðu fyrir einelti í öllum 25 þátttökulöndum EU kids online könnunarinnar í heild var 6%.

Rétt rúmlega 5% íslenskra barna og unglinga sögðust hafa orðið fyrir einelti í gegnum farsíma, þ.e. verið strítt, áreitt, ógnað eða þau skilin útundan. Þar af sagðist innan við 1% hafa orðið fyrir því einu sinni í mánuði eða oftar. Í öllum 25 þátttökulöndum EU kids online könnunarinnar í heild var hlutfall þeirra sem sögðust hafa orðið fyrir einelti í gegnum farsíma 3%.

Samskiptasíður og skyndiskilaboð algengasti farvegurinn

Þau börn sem höfðu orðið fyrir einelti á netinu á sl. 12 mánuðum voru í kjölfarið spurð hvar á netinu eineltið hefði átt sér stað. Líkt og í öðrum Evrópulöndum eru samskiptasíður og skyndiskilaboð algengast farvegurinn fyrir einelti á netinu. Yfir helmingur þeirra sem höfðu orðið fyrir einelti sögðu að eineltið hefði átt sér stað á samskiptasíðum eins og Facebook og rúmlega 36% sögðu að það hefði átt sér stað í skyndiskilaboðum eins og á MSN, Snapchat eða Facebook chat. Töluvert færri eða einn af hverjum 10 nefndi leikjasíður og 7,5% tölvupóst. Naumlega þriðjungur sagði eineltið hafa átt sér stað annars staðar á netinu.

Eins voru þau börn sem höfðu orðið fyrir einelti á netinu eða í gegnum farsíma á sl. 12 mánuðum spurð í hverju eineltið hefði falist.  Algengast var, bæði þegar um var að ræða einelti á neti og í gegnum farsíma, að börnunum hefðu verið send andstyggileg og særandi skilaboð (texti, mynd eða vídeó). Á netinu var einnig algengt að þau hefðu verið útilokuð úr grúppu eða viðburði á netinu.

Einnig sögðu rúmlega 15% þeirra sem höfðu orðið fyrir einelti á netinu og 19% þeirra sem höfðu orðið fyrir einelti í gegnum farsíma að eineltið hefði falist í því að andstyggilegum og særandi skilaboðum um þau hefði verið dreift til annarra eða á vefsvæði sem aðrir gátu séð.

Frétt mbl.is: Færri senda andstyggileg skilaboð

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert