„Ég er 100% mamma hennar“

Þessi mynd af Marilyn og Romylyn var tekin á Filippseyjum …
Þessi mynd af Marilyn og Romylyn var tekin á Filippseyjum árið 2003, en Marilyn kom til Íslands árið 2005. mbl.is

„Ég er 100% mamma hennar,“ segir Marilyn Faigane, en Útlendingastofnun hefur hafnað umsókn Romylyn Faigane um dvalarleyfi hér á landi á þeirri forsendu að í umsókn um dvalarleyfi hafi ekki verið sýnt fram á með fullnægjandi hætti að Marilyn sé móðir Romylynar.

Romylyn hefur í nokkur ár barist fyrir því að fá að dveljast á Íslandi hjá móður sinni, en hún býr hér á landi ásamt eiginmanni sínum, Ellert Högna Jónssyni. Marilyn og Ellert eiga eina dóttur saman, sem er hálfsystir Romylynar.

Upphaflega sótti Marilyn um að Romylyn mætti koma til landsins þegar hún var 14 ára. Romylyn kom til landsins í desember 2011 sem ferðamaður, sem þýddi að hún mátti vera þrjá mánuði í landinu. Útlendingastofnun hafnaði umsókn árið 2012, en sú niðurstaða var kærð til innanríkisráðuneytisins. Það tók ráðuneytið 14 mánuði að afgreiða umsóknina. Niðurstaða ráðuneytisins var á þá leið að hún mætti vera í landinu meðan Útlendingastofnun afgreiddi umsóknina.

Eftir að Útlendingastofnun fékk málið aftur til meðferðar óskaði stofnunin eftir nýjum gögnum í málinu. Viðbrögð Romylynar urðu hins vegar þau að fara af landi brott. Ellert sagði í samtali við mbl.is í haust að hún hefði einfaldlega gefist upp. Hún hefði verið orðin döpur yfir þessari löngu bið og hefði ekki treyst sér til að halda baráttunni áfram.

Framlögð gögn sögð ófullnægjandi

Í bréfi Útlendingastofnunar segir að stofnunin geri „almennt miklar kröfur til skjala og sérstaklega mikilvægra skjala líkt og fæðingarvottorðs, dánarvottorðs og forsjárgagna.“

Í bréfinu segir að mikið hafi vantað á að umsækjandi hafi lagt fram fullnægjandi gögn í málinu. Getið er sérstaklega um dánarvottorð föður hennar, en því sé ýmist haldið fram að hann hafi látist 2007 eða 2009. Í bréfinu segir að dánarvottorðið sé „ótrúverðugt“ og ekki hafi verið sýnt fram á að faðirinn sé látinn.

Þá hafi umsækjandi „aldrei lagt fram fullnægjandi fæðingarvottorð þar sem sýnt sé fram á að hún sé dóttir Marilyn Faigane“.

Í bréfi Útlendingastofnunar er sérstaklega fjallað um hvort til greina komi að veita Romylyn dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, en hún dvaldi hér á landi í tæplega tvö ár. „Ljóst er að umsækjandi getur ekki á svo stuttum dvalartíma myndað svo sérstök tengsl við Ísland að réttlæti veitingu dvalarleyfis á grundvelli dvalarinnar einnar,“ segir í bréfi Útlendingastofnunar.

„Ásökuð um hafa stolið barninu“

Marilyn er mjög ósátt við þessa niðurstöðu Útlendingastofnunar og segir að það sé persónulegt áfall fyrir sig þegar því sé haldið fram að hún sé ekki móðir Romylynar. „Það er verið að ásaka mig um að hafa stolið barninu,“ segir Marilyn.

Marilyn segir að Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, hafi aldrei kallað sig á sinn fund til að ræða um tengsl sín við Romylyn. Þetta sé reyndar ekki í fyrsta skipti sem hún fái það framan í sig að hún sé ekki móðir Romylynar því Kristín hafi haldið þessu fram í útvarpsviðtali í júlí 2012. Útlendingastofnun hafi gefist nægur tími til að rannsaka þessa ásökun því Romylyn hafi dvalist hér á landi í tæplega tvö ár.

Ætlar að kæra niðurstöðuna

Ellert segir að forstjóri Útlendingastofnunar sé í þessu bréfi að fara með dylgjur sem hún eigi ekki að komast upp með að halda fram. Hann segir að hann ætli að kæra þessa niðurstöðu stofnunarinnar til innanríkisráðuneytisins. Hann segist eiga fund með Mannréttindaskrifstofu Íslands í næstu viku til að undirbúa kæruna. Hann segist einnig ætla að kæra þann drátt sem hafi orðið á afgreiðslu málsins í heild sinni. Þar muni hann krefjast skaðabóta, enda eigi Romylyn ekki að þurfa að bera skaðann af þeim drætti sem hafi orðið á afgreiðslu málsins.

Ellert segir að þegar fæðingarvottorðið var fyrst sent til landsins hafi í því verið stafavilla. Fyrir mistök var ættarnafnið „Faegane“ skrifað en ekki „Faigane“. Hann segir að stofnunin sem gaf út vottorðið hafi síðar leiðrétt það og raunar hafi þrisvar sinnum verið sent afrit af fæðingarvottorði til Útlendingastofnunar. Varðandi dánarvottorðið segir Ellert að hann hafi gert þau mistök þegar hann skrifaði bréf til Útlendingastofnunar að fara vitlaust með dánarár föður Romylynar. Hann hafi látist 2007. Andlát föður hennar skipti hins vegar engu máli við afgreiðslu umsóknarinnar því verið sé að fjalla um umsókn frá manneskju sem er fullveðja og er orðin 22 ára gömul.

Það er af Romylyn að frétta að hún er á Filippseyjum. Ellert segir að hann og móðir hennar haldi henni uppi með peningagreiðslum enda sé enga vinnu þar að fá. Aðstæður hennar í dag hafi verið mjög erfiðar vegna fellibylsins sem gengur yfir Filippseyjar og hefur ollið miklu tjóni.

Frétt mbl.is: „Hún bara gafst upp og fór“

Frétt mbl.is: Er 300 daga að afgreiða kærur

Frétt mbl.is: Senda bréfið til Filippseyja

Þessi mynd var tekin af fjölskyldunni meðan Romylyn dvaldi hér …
Þessi mynd var tekin af fjölskyldunni meðan Romylyn dvaldi hér á landi. Frá vinstri: Romylyn Fagaine, Ellert Högni Jónsson, Una Margrét Ellertsdóttir og Marilyn Faigane.
Þessi mynd af Marilyn og Romylyn var tekin á Filippseyjum …
Þessi mynd af Marilyn og Romylyn var tekin á Filippseyjum árið 2003, en Marilyn kom til Íslands árið 2005. mbl.is
Fæðingavottorðið sem Útlendingastofnun telur ekki fullnægjandi.
Fæðingavottorðið sem Útlendingastofnun telur ekki fullnægjandi. mbl.is
Marilyn og Romylyn á Filippseyjum þegar Romylyn var 12 ára. …
Marilyn og Romylyn á Filippseyjum þegar Romylyn var 12 ára. Hún er 22 ára í dag. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert