Vill Hreiðar Má í sex ára fangelsi

Hreiðar Már Sigurðsson í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Hreiðar Már Sigurðsson í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Sérstakur saksóknari fer fram á sex ára fangelsi yfir Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings banka, vegna aðildar að Al-Thani-málinu. Þá fer hann einnig fram á sex ára fangelsi yfir Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni sama banka. og fjögurra ára fangelsi yfir Magnúsi Guðmundssyni og Ólafi Ólafssyni sem var einn stærsti eigandi bankans.

Munnlegur málflutningur hófst fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun og hóf Björn Þorvaldsson, saksóknari hjá embætti sérstaks saksóknara, leik og lauk máli sínu í hádeginu.

Meðal þess sem kom fram í máli saksóknara var að hann teldi málið fordæmalaust þegar kemur að efnahagsbrotum hér á landi. Markaðssvikin sem um ræðir hafi aukið tiltrú á bankanum og „allir hérna inni muna hvað þeir hugsuðu þegar þeir heyrðu að Al-Thani fjáfesti í bankanum.“ 

Þá benti hann á að Kaupþing hefði einn banka fengið neyðarlán frá Seðlabanka Íslands og að ákæruvaldið telji að það hafi ekki síst verið vegna þeirra fölsku hughrifa sem sköpuðust af þessum viðskiptum.

Tjónið sé því án fordæma og allir hafi sakborningar átt hlut í bankanum og því haft mikla hagsmuni af viðskiptunum. Hann sagði rétt að Hreiðar Már og Sigurður yrðu ekki dæmdir til vægari refsingar en sex ára fangelsisvistar og að Magnús og Ólafar yrðu dæmdir í ekki minna en fjögurra ára fangelsi.

Saksóknari sagði ljóst að Hreiðar Már hefði átt hugmyndina að viðskiptunum og borið hana undir Ólaf. Þá hafi hann viðurkennt að hafa átt fund með Ólafi og Magnúsi í byrjun september 2008 þar sem Magnúsi var greint frá viðskiptunum. Einnig kannaðist hann við að hafa átt fund með viðskiptastjórum bankans þar sem farið var yfir uppbyggingu viðskiptana.

Ennfremur hafi komið fram hjá Hreiðari Má að Kaupþing hafi fjármagnað kaupin að fullu og að hann hafi lagt að starfsmönnum bankans að vinna hratt að málinu.

Saksóknari sagði því að fram væri komin full sönnun fyrir því að Hreiðar Már hafi tekið ákvörðun um viðskiptin og gefið fyrirmæli um þau.

Þá hafi Sigurður sagst hafa vitað af viðskiptunum og farið í fjölmargar ferðir til Katar til að laða að fjárfesta þaðan. Hann hafi rætt um viðskiptin við Hreiðar Má. Sigurður hafi þvíí verið á meðal þeirra sem tók ákvörðun um viðskiptin og fjármögnun þeirra.

Magnús hafi sagt að hann hafi frétt af viðskiptunum á fundi með Hreiðari Má í London í september 2008. Hann hafi sjálfur farið með Ólafi til Katar til fundar við Al-Thani og hann átti samskipti og milligöngu um viðskiptin. Fyrirmæli hafi komið frá honum og liggi fjölmargir tölvupóstar fyrir um það. Hann hafi því átt hlutdeild í markaðsmisnotkun með undirbúningnum og því að koma á viðskiptunum.

Að endingu hafi Ólafur viðurkennt að hafa komið viðskiptunum á og óumdeilt sé að hann hafi átt einkafund með Al-Thani vegna þeirra þar sem hann kynnti viðskiptin. Hann hafi því tekið þátt í undirbúningi viðskiptanna auk þess sem félag hans, Gerland, hafi tekið helming kaupverðsins að láni hjá Kaupþingi en það gerði viðskiptin að veruleika. 

Nánar verður fjallað um málflutning saksóknara á mbl.is í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert