Grænn eða rauður Ópal?

Al Thani málið í Héraðsdómi Reykjavíkur
Al Thani málið í Héraðsdómi Reykjavíkur mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrirsögnin er eflaust dálítil einföldun á Al-Thani-málinu svonefnda en þar sem saksóknari og aðstoðarfólk hans gæddu sér á rauðum Ópal í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag og sakborningar og verjendur sátu á móti og létu grænan Ópal ganga á milli má segja að það sé fjölskipaðs dóms að velja þarna á milli.

Aðalmeðferð í Al-Thani-málinu lauk síðdegis í dag en hún hefur staðið yfir frá mánudeginum 4. nóvember. Meðferð málsins fyrir dómstólum hefur tekið hins vegar tekið mun lengri tíma og var ákæra í málinu gefin út 16. febrúar 2012.

Í eðli sínu er málið kannski ekki flókið, en það er sannarlega alvarlegt. Það sést best á kröfum sérstaks saksóknara um sex ára fangelsi yfir tveimur sakborninga og fjögurra ára fangelsi yfir hinum tveimur. Að vísu er málið á tíu þúsund blaðsíðum og eru þá ótalin gögnin sem tengjast málinu en voru ekki lögð fram.

Ákært er fyrir lánveitingar tengdar viðskiptum sjeiksins Al-Thani við Kaupþing í september 2008 og svo fyrir að láta ranglega líta út að sjeikinn Al-Thani hafi verið í viðskiptunum við Kaupþing. 

Voru lánin heild eða ekki?

„Fléttan“ var þannig að Kaupþing lánaði þremur félögum, það fyrsta var í eigu sjeiks Súltans, næsta í eigu Ólafs Ólafssonar og þriðja í eigu sjeiks Al-Thani. Þau félög stofnuðu fjárfestingafélagið Choice og það félag lánaði Q Iceland Finance fyrir kaupum á 5,01% hlut í Kaupþingi. Q Iceland Finance var þó í eigu Al-Thani.

Í málinu er ákært fyrir lánið til félags Ólafs Ólafssonar sem nefndir Gerland. Það fékk lán upp á 12,8 milljarða króna án trygginga. Ekki er hins vegar ákært fyrir lánið til félags Al-Thani, Serval, fékk lán upp á sömu upphæð. Þar var nefnilega lögð fram sjálfskuldarábyrgð Al-Thani fyrir upphæðinni.

Það sem verjendur segja í vörn sinni er að ekki sé hægt að líta á þessi lán í sitthvoru lagi. Um hafi verið að ræða eina heild sem hafi orðið til þess að Q Iceland Finance keypti hlutabréfin. Þess vegna hafi sjálfsskuldaábyrgðin dekkað lánið til Ólafs. Og þrátt fyrir að lánin væru talin sem ein heild væri veð Al-Thani mjög gott, og betra en gekk og gerðist í lánastarfsemi á þessum tíma.

Lánið var ekki samþykkt af lánanefnd bankans en sakborningar segja að það hafi verið fyrir handvömm og skella þeirri skuld á þáverandi viðskiptastjóra bankans. Ákæruvaldið hafnar þessu náttúrlega öllu segir að fjártjónshætta hafi skapast vegna lánsins. Um var að ræða ótryggt lán sem átti að nota til áhættusamra viðskipta í bankanum. Fjártjónshættan hafi verið þeim mun meiri vegna þess að hlutabréfamarkaðurinn var í mikilli óvissu.

Svo er það lánið til Brooks

Jafnvel þó hægt sé að fallast á það með verjendum og sakborningum að þetta hafi verið ein heild, handvömm hafi ráðið því að lánið var ekki samþykkt með eðlilegum hætti og fjártjónshætta hafi ekki verið fyrir hendi þar sem sjálfskuldarábyrgð Al-Thani lá fyrir þá stendur eftir ákæruliður 1. Það er lánveiting til félagsins Brooks.

Brooks var félag í eigu Al-Thani og „vistað“ í Kaupþingi í Lúxemborg. Það félag fékk 50 milljónir Bandaríkjadala að láni frá Kaupþingi í september 2008. Þær skýringar sem verjendur hafa gefið á þessu láni eru á þá leið að féð hafi verið bundið á reikningi félagsins og ekki hefði verið hægt að hreyfa við því nema með liðsinni starfsmanna Kaupþings. Féð hafi verið fært á þennan reikning vegna mögulegra fjárfestinga í framtíðinni. Félagið var eignalaust og lánað án trygginga.

Saksóknari hélt því hins vegar fram að fjármunirnir hefði ekki verið bundnir og til frjálsrar ráðstöfunar fyrir Al-Thani. Í skýrslutökum fyrir dómi kom fram að Halldór Bjarkar Lúðvígsson, fyrrverandi viðskiptastjóri hjá Kaupþingi, lýsti láninu sem greiðslu til Al-Thani fyrir að leggja nafn sitt við viðskiptin. Mútugreiðslu.

Meðal þess sem kom fram á máli Harðar Felix Harðarsonar, verjanda Hreiðars Más, var að útgreiðsla lánsins hefði ekki átt sér stað fyrr en eftir að lánanefnd bankans samþykkti lánið. Þá sé rangt að segja það eignalaust, það hafi átt eigið reiðufé sem nam sömu upphæð og lánað var. Hreiðar hafi litið á þetta sem litla áhættu, þarna væru fjármunirnir þar til ráðist yrði í fjárfestingu. Félagið hafi verið stofnað í þeim eina tilgangi að fjárfesta í skuldabréfum útgefnum af Deutsche bank.

Ákært er fyrir umboðssvik vegna umræddra lánveitinga.

Milljarðar frá Mið-Austurlöndum

En einnig er í málinu ákært fyrir markaðsmisnotkun og segir í ákærunni að ranglega hafi verið látið líta svo út að Al-Thani hafi keypt 5,01% hlut í bankanum. Þó svo það hafi verið félag í hans eigu, Q Iceland Finance, var því félagið lánað fyrir kaupunum, af Gerland og Serval, félögum Ólafs og Al-Thani. Og þau félög áttu ekkert nema lánið sem þau fengu frá Kaupþingi. Þannig hafi Ólafur Ólafsson bæði komið að kaupunum og Kaupþing fjármagnað þau að fullu.

Sérstakur saksóknari segir að þegar tilkynnt var um viðskiptin hafi Kaupþing farið á flug, og það á óvenjulegum tíma því Lehman Brothers féllu í vikunni á undan. Markaðurinn hafi trúað því að erlendur gjaldeyrir streymdi frá Mið-Austurlöndum inn í Kaupþing. Þá hafi Hreiðar Már og Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, komið fram í fréttatilkynningum og fjölmiðlum þar sem kaup Al-Thani voru lofuð. Og reyndar Ólafur Ólafsson einnig, af einhverjum ástæðum.

Það var svo ekki fyrr en eftir að Kaupþing féll, sem var reyndar ekki löngu síðar, að í ljós kom að bankinn fjármagnaði hlutafjárkaupin að fullu og að Ólafur Ólafsson var þátttakandi í gegnum félagið Gerland. „Þrátt fyrir að Al-Thani ætti alla heimsins peninga þurfti hann ekki að leggja fram krónu,“ sagði Björn Þorvaldsson, saksóknari í málinu.

Hann sagði að ekki væri hægt að líta á þetta öðru vísi en að fjárfestar og hluthafar bankans hefðu verið blekktir. „Það var markmið fléttunnar. Til þess var farið af stað.“

Sex ára fangelsi fyrir góðar ákvarðanir?

Eins og gefur að skilja voru verjendur ekki alveg sammála saksóknaranum. Hörður Felix sagði það einfaldlega rangt af saksóknara að draga upp mynd sýndarmennsku og blekkinga. Viðskiptin hafi verið afrakstur þrotlausrar vinnu stjórnenda bankans sem reyndu að laða fjárfesta frá Mið-Austurlöndum að bankanum. Þarna hafi verið um gríðarlega stóran feng að ræða enda einn af auðugustu mönnum veraldar sem var tilbúinn að fjáfesta.

Þá sé það óumdeilt að Al-Thani hafi lagt allar eigur sínar og aflahagi að veði gegn þessum 12,8 milljörðun sem hann tók að láni hjá Kaupþingi. Þetta átti enda að vera upphafið að einhverju miklu meira. 

Hörður sagði einnig að frá sjónarhóli bankans og hluthafa hans hafi þetta verið ein verðmætasta ákvörðun sem tekin var á síðustu dögum bankans. Það sé kjarni málsins og megi ekki týnast í gagnaflóði saksóknara. Sakborningar hafi ekki haft persónulega hagsmuni af þessum viðskiptum, heldur hafi eina ástæðan verið að styrkja bankann.

Svo benti hann á að slitastjórn Kaupþings hefði samkvæmt gjaldþrotalögum verið heimilt að rifta þessum viðskiptum. „Af hverju ætli slitastjórnin hafi ekki rift þessum viðskiptum. Jú, þau skiptu öllu málí. [...] Hún kemst að þeirri niðurstöðu að það sé ekki ástæða til að rekja viðskiptin til baka. Hún kemst að þeirri niðurstöðu að viðskiptin hafi verið góð. Þess vegna gengur þetta einfaldlega ekki upp [hjá sérstökum saksóknara].“

Hann nefndi það svo í síðari ræðu sinni að Hreiðar Már hafi lýst því hversu merkilegt honum þætti að sérstakur saksóknari fari fram á að hann verði lokaður inni í sex ár fyrir ákvarðanir sem ekki aðeins hann, heldur einnig bankinn og síðar slitastjórn telja góðar.

Hvað varðar fjármögnunina og að upplýsa um hana sagði Hörður að ef sakfellt verði fyrir þennan ákærulið þá sé ljóst að nóg verði að gera hjá sérstökum saksóknara og dómstólum á næstu árum enda liggi það fyrir að svo til öll hlutabréfaviðskipti á Íslandi séu þá talin markaðsmisnotkun. Meginþorri þeirra sé fjármagnaður af fjármálafyrirtæki sem beri áhættu. Og það sé aldrei upplýst um fjármögnunina, enda sé það ekki skylt.

Héraðsdómur Reykjavíkur kveður upp dóm í málinu 12. desember næstkomandi og ef taka á mið af málum af þessum toga verður dóminum áfrýjað til Hæstaréttar. Má því búast við niðurstöðu á fyrri hluta næsta árs.

Al Thani málið í Héraðsdómi Reykjavíkur
Al Thani málið í Héraðsdómi Reykjavíkur mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert