Endurhæfing skorin niður

Hveragerði
Hveragerði mbl.is/Sigurður Bogi

„Það er óskiljanlegt í ljósi þeirrar mikilvægu meðferðar sem fram fer á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands að ítrekað sé ráðist að stofnuninni með þeim hætti sem hér hefur verið gert.“ Þetta segir í ályktun bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar sem samþykkt var samhljóða í gær, en þar er áformum um niðurskurð á fjárframlögum til Heilsustofnunarinnar harðlega mótmælt.

Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2014 er lagt  til að stofnunin taki á sig allan niðurskurð endurhæfingarstofnana sem þar eru tilgreindar og nemur hann um 27,4 milljónum króna. Þá segir stofnunin fái í dag einungis um 20,2% fjárveitinganna og nemur niðurskurðurinn um 5% af fjárveitingu ársins.

Í ályktuninni segir að  sérstaka athygli veki að nýr þjónustusamningur hafi verið undirritaður í lok árs 2011 og forsvarsmenn stofnunarinnar hafi ekki átt von á öðru en að hann yrði efndur. Samkvæmt samningnum var stofnuninni gert að bæta á sig kostnaði vegna 20 sjúklinga í þungri endurhæfingu, og fór starfsárið 2012 í að aðlaga stofnunina að hinum nýja samning. Kostnaður vegna þeirra breytinga hafi numið rúmum 50 milljónum króna.

„Orðalag í fjárlögum lýsir ákveðinni vanþekkingu á þeirri starfsemi sem þarna fer fram, en staðreyndin er sú að ríkisvaldið greiðir eingöngu fyrir sjúklinga í þungri endurhæfingu og meðalþungri. Má þar nefna krabbameinsendurhæfingu, gigtarendurhæfingu, geðendurhæfingu og liðskipta- hjarta-, æða- og lungnaendurhæfingu svo fátt eitt sé talið,“ segir í ályktuninni.

Um 100-120 sjúklingar eru í þungri eða meðalþungri endurhæfingu á stofnuninni á hverjum tíma, en stofnunin telst eitt ódýrasta legurými landsins. Þá segir að ljóst sé að veruleg skerðing verði á þjónustunni með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkið þar sem endurhæfing muni þá þurfa að fara fram í dýrari úrræðum en í þeim sem í boði eru hjá stofnuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert