Kaþólska kirkjan ekki bótaskyld

Landakotskirkja
Landakotskirkja mbl.is/ÞÖK

Fagráði kaþólsku kirkjunnar á Íslandi bárust alls 17 kröfugerðir vegna ofbeldis eða kynferðislegar misnotkunar. Kirkjan er ekki bótaskyld að lögum nema í einu máli, sem er fyrnt. Öllum sem gerðu kröfu á kirkjuna hefur nú verið sent bréf og fyrirgefningarbeiðni. Kirkjan telur málinu þar með lokið.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Kaþólska kirkjan sendir frá sér í dag. Þar kemur fram að stjórnendur kirkjunnar hafi sent endanlegt svar til allra hlutaðeigandi í gær. Í bréfinu segir að hugur þeirra leiti til fórnarlambanna persónulega og fjölskyldna þeirra.

Biðja fórnarlömbin fyrirgefningar

„Eins og páfar og biskupinn hafa margítrekað gert, tjá yfirvöld Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi viðkomandi dýpstu hluttekningu sína vegna þess sem gert hefur verið á þeirra hlut og biðja fórnarlömbin fyrirgefningar á því,“ segir í fréttatilkynningunni.

Kaþólska kirkjan skipaði í nóvember 2012 fagráð sem veita átti biskupi álit um bótarétt þolenda kynferðisofbeldis eða annars ofbeldis innan Kaþólsku kirkjunnar, í ljósi skýrslu rannsóknarnefndar kirkjunnar sem kom út í ágúst í fyrra.

Fagráðið tók til starfa í desember 2012, undir formennsku Eiríks Elísar Þorlákssonar hrl. Það skilaði sínum niðurstöðum í ágúst og hefur kirkjan síðustu mánuði farið í gegnum þær og tekið afstöðu til þeirra. Kirkjan segist hafa gert allar nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við sömu verklagsreglur og tíðkast hjá Kaþólsku kirkjunni um allan heim og í samræmi við íslensk lög.

Flestar kröfur gegn séra George og Margréti Müller

Af þeim 17 kröfugerðum sem fagráðinu barst voru 10 gegn hollenska prestinum sér George og kennslukonunni Margréti Müller, vegna kynferðislegrar misnotkunar. Þau eru bæði látin. Einnig bárust fagráðinu 6 kröfugerðir gegn þeim vegna andlegs og annars ofbeldis.

Ein kröfugerðin varðaði kynferðisleg samskipti tveggja fullorðinna einstaklinga.

Öll þessi tilvik eru fyrnd að lögum og að áliti fagráðsins telst kirkjan ekki bótaskyld nema í einu þeirra. Í niðurstöðukafla skýrslu fagráðsins segir að ef engu að síður kæmi til greiðslu af hálfu kirkjunnar, þá væri það að mati fagráðsins umfram lagaskyldu.

Ekki viðurkenning á bótaskyldu

Tekið er fram í fréttatilkynningu kaþólsku kirkjunnar í dag að Reykjavíkurbiskupsdæmi hafi síðustu þrjú ár varið miklum tíma, vinnu og orku í þessi mál og „hefur að sjálfsdáðum lagt áherslu á að komast til botns í þessu erfiða máli með hlutlægni og vandvirkni að leiðarljósi.“

Þar segir jafnframt  að stjórnendur kaþólsku kirkjunnar hafi gert sitt besta til að leiða málið til lykta og veitt öllum aðilum; nefndum, yfirvöldum og þolendum reglulega allar tiltækar upplýsingar um málið.

„Allar ráðstafanir sem nú verða gerðar gerir Kaþólska kirkjan af fúsum og frjálsum vilja, sem felur þó ekki í sér viðurkenningu á bótaskyldu samkvæmt íslenskum lagareglum, hvorki beinni né óbeinni,“ segir í fréttatilkynningunni.

Ekki er þó tilgreint frekar hverjar þær ráðstafanir eru eða hvort einhverjum séu sannarlega greiddar bætur, þótt kirkjan teljist ekki bótaskyld.

„Með þessum aðgerðum staðfesta kaþólsk kirkjuyfirvöld endanlega lok þessara erfiðu mála,“ segir í fréttatilkynningunni. 

„Á undanförnum árum hefur í forvarnarskyni allt verið gert sem í mannlegu valdi stendur til þess að koma í veg fyrir hvers konar misnotkun í framtíðinni. Kirkjan er að auki ætíð reiðubúin að veita þjónustu og sálusorgun öllum þeim sem þess óska enda er það hlutverk hennar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert