Geirvarta er ljótasta orðið

Ljótasta orðið afhjúpað við Holu íslenskra fræða: Geirvarta.
Ljótasta orðið afhjúpað við Holu íslenskra fræða: Geirvarta. mbl.is/Árni Sæberg

Orðið geirvarta er ljótasta orð íslenskrar tungu. Þetta er niðurstaða leitarinnar að ljótasta orði íslenskrar tungu sem fram fór á Facebook. Hátt í 700 tillögur bárust og hundruð atkvæða voru greidd á milli hlutskörpustu orðanna.

Orðin sem næst komu á eftir geirvörtunni og þóttu vera mikið lýti í íslenskri tungu voru: mótþróaþrjóskuröskun, líkþorn og legslímuflakk.

Ljótt orð yfir fallegt fyrirbæri

Um 250 manns kusu með orðinu geirvarta og töldu flestir að orðið sómaði einfaldlega ekki svo fallegu fyrirbæri. Þá veltu menn því fyrir sér hver þessi „Geir“ væri, sem geirvartan er kennd við, auk þess sem kjósendur virtust óánægðir með að fyrirbærinu væri líkt við vörtu. „Orðið geir merkir náttúrulega oddur, en menn tengja þetta gjarnan við manninn Geir. Þetta er einfaldlega mjög skrýtin samsetning orða og lýsing,“ sagði Viktor Orri Valgarðsson, annar skipuleggjanda leitarinnar að ljótasta orðinu.

Ljót verðlaun veitt á ljótum stað

Boðið var til hátíðlegrar athafnar við svokallaða holu íslenskra fræða, en það er grunnurinn þar sem reisa átti Hús íslenskra fræða á milli Suðurgötunnar og Þjóðarbókhlöðunnar. „Okkur fannst staðsetningin henta vel, þar sem við erum að tala um tungumálið og eitthvað sem átti að verða mjög fallegt og veglegt, en er mjög ljótt, og mjög tengt íslenskri tungu,“ sagði Viktor Orri.

Fyrir ljótasta orðið voru veitt ljót verðlaun, en vinningshafinn fékk afhenda gamla og niðurnídda hurð sem þykir vera sérlega ljót. „Ljót verðlaun fyrir ljótt orð,“ sagði Viktor Orri að lokum.

Kvennakór tók lagið við afhjúpun ljótasta orðsins.
Kvennakór tók lagið við afhjúpun ljótasta orðsins. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert