Elding raskaði talstöðvarsambandi

Eldingarnar. Mynd úr safni.
Eldingarnar. Mynd úr safni. mbl.is/Hilmar Bragi

Elding sást á himni í Reykjavík um kl. 20 mínútur fyrir sex í morgun. Starfsfólk Veðurstofunnar sá eldinguna en hún kom hins vegar ekki fram á mælum.

Eldingunni sló niður í loftnet leigubílastöðvarinnar BSR sem er á þaki Hótel Sögu, skemmdi sendinn og raskaði talstöðvarsambandi. Samkvæmt upplýsingum frá BSR heyrðu bílstjórarnir í starfsmönnum skiptiborðsins á leigubílastöðinni en gátu ekki svarað vegna bilunarinnar. Viðgerðarmenn voru kallaðir út og var varastöð tekin í notkun. Skemmdirnar á loftnetinu og sendinum verða kannaðar frekar í dag.

Óli Þór Árnason, veðurfræðingur, segir að einn maður hafi hringt á Veðurstofuna í morgun og vaknað við drunurnar sem fylgdu eldingunni. 

Óli Þór segir að í sjálfu sér sé ekki óvenjulegt að eldingar verði í þeim veðurfarslegum aðstæðum sem nú ríkja á Suðvesturlandi. 

„Éljaklakkar geta myndað eldingar, rétt eins og stór skúraský. Þetta gerist ekki oft hér á landi en er algengara í Evrópu þar sem hitamunur milli yfirborðs og hærri laga í andrúmsloftinu er meiri.“

Óli Þór segir að nú sé mjög kalt í háloftunum og þá myndist hitamunur sem sé forsenda þess að eldingar verði til. „En þetta verður aldrei mikið, kannski stöku eldingar. Ég tel ólíklegt að við sjáum fleiri eldingar í dag því þessi vestanhátt sem er núna er að skríða hægt og rólega suður af landinu, þannig að við tekur mun kaldara loft úr norðri.“

Þegar það gerist minnkar hitamunurinn milli efri laga andrúmslofstins og yfirborðs. „Þannig að ég á ekki von á fleiri eldingum í dag.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert