Sakaði Sigmund um að veitast að Seðlabankanum

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það er umhugsunarefni fyrir okkur sem þingmenn og þingnefndarmenn ef gestir á þingnefndarfundum þurfa að sæta meðhöndlun af þessu tagi þegar út í þjóðfélagið er komið, af hálfu ráðamanna,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í umræðum á Alþingi í dag.

Steingrímur gagnrýndi þar Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, harðlega fyrir að hafa sakað forystumenn Seðlabanka Íslands um að vera í pólitík með þeim ummælum sínum á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í gær að ólöglegt væri að fjármagna skuldaleiðréttingar fyrir heimilin í landinu í gegnum útgáfu skuldabréfs af hálfu bankans, slíkt jafngilti peningaprentun og lánshæfi landsins gæti með því lent í ruslflokki.

„Seðlabankinn gaf sér engar forsendur í þessum efnum fyrir fram og tók ekki upp þetta mál að fyrra bragði heldur svaraði aðspurður beinni efnislegri spurningu. Ég tel það alvarlegt að forsætisráðherra veitist með þessum hætti að ósekju að Seðlabankanum,“ sagði Steingrímur.

Kallaði hann eftir því að Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, tæki upp hanskann „fyrir gestina sem sæta ósanngjarnri meðhöndlun þegar látið er að því liggja að þeir hafi gefið sér einhverjar forsendur eða skáldað sér upp tilefni til þess að geta komið afstöðu sinni á framfæri. Þeir voru að svara spurningu á fundi þingnefndar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert