Hvers vegna er Landspítalinn í kreppu?

Einar Stefánsson, prófessor og yfirlæknir við Landspítala segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag að peningar hafi verið teknir frá Landspítala og fluttir til annarra ríkisstofnana.

Greinin er birt hér á mbl.is vegna þess að töflur sem fylgdu greininni birtust ekki rétt í blaðinu í dag.

„Orsakir kreppu Landspítalans eru vafalaus margþættar, en gríðarlegur niðurskurður fjárveitinga á þar stóran hlut. Það er næsta ótrúlegt hvað fjárveitingavaldið hefur skorið Landspítalann mikið niður, langt umfram annan ríkisrekstur. Á undanförnum áratug hafa fjárveitingar til Landspítala lækkað mun meira en fjárveitingar til ríkisstofnana almennt.

Landspítali skorinn umfram aðrar ríkisstofnanir

Mynd 1 (frá hagdeild Landspítala) sýnir þróun opinberra útgjalda eftir málaflokkum frá 2001 til 2012, byggða á þjóðhagsreikningum Hagstofu Íslands og ársreikningum Landspítala. Á myndinni má sjá að útgjöld til almannatrygginga og velferðarmála hafa hækkað um meira en 50% á þessu tímabili og framlög til menntamála og heilbrigðismála um u.þ.b. 10-15%. Framlög til Landspítala hafa aftur á móti lækkað um næstum 10%.

Framlög ríkisins til Landspítala á tímabilinu hafa lækkað í öllum samanburði eins og sjá má í töflu . Árið 2001 voru framlög til Landspítala 2,6% af þjóðarframleiðslu og fóru upp í 2,9% 2003. Árið 2012 er hlutfallið komið niður í 2,1%. Framlag til Landspítalans sem hlutfall af útgjöldum hins opinbera var 6,3% fyrir áratug en er komið niður í 4,5% árið 2012. Á mannamáli þýðir þetta að peningar hafi verið teknir frá Landspítala og fluttir til annarra ríkisstofnana.

Landspítali lækkar en önnur heilbrigðisútgjöld hækka

Það vekur athygli að fjárframlög hins opinbera til Landspítalans hafa lækkað verulega sem hlutfall af framlögum ríkisins til heilbrigðismála. Árið 2001 fékk Landspítalinn 32,3% af útgjöldum hins opinbera til heilbrigðismála en 27,9% árið 2012 (sjá töflu). Árið 2001 fékk Landspítalinn 61,9% af heildarframlögum hins opinbera til sjúkrahúsþjónustu, sem er nú komið niður í 58,1%. Á sama tíma hefur Landspítalinn tekið til sín aukin verkefni. Aftur má túlka það þannig að peningar hafi verið færðir frá Landspítala til annarra verkefna innan heilbrigðiskerfisins. Þessi samanburður sést vel á mynd 2 (frá hagdeild Landspítala), sem sýnir þróun heilbrigðisútgjalda hins opinbera frá 2001 til 2012 og er sem fyrr byggð á þjóðhagsreikningum Hagstofu Íslands og ársreikningum Landspítala. Myndin sýnir að heildarútgjöld ríkisins til heilbrigðismála hafa aukist verulega á liðnum áratug. Útgjöld til almennrar sjúkrahúsþjónustu að Landspítala undanskildum hafa hækkað um nær 10% á þessu tímabili á meðan útgjöld til Landspítala hafa lækkað verulega. Þess ber þó að geta að kostnaður vegna S-lyfja er hluti af almennum sjúkrahúskostnaði og hefur hækkun þeirra verið talsverð síðustu ár.

Stefnumótun um niðurskurð Landspítala?

Þessar staðreyndir sýna svo ekki er um villst að fjárveitingarvaldið hefur skorið Landspítalann sérstaklega niður á liðnum áratug, langt umfram aðrar ríkisstofnanir. Slíkt hlýtur að teljast stefnumótandi en þó hefur mér vitandi ekki farið fram nein umræða né sú niðurstaða verið sett fram að Landspítalinn sé léttvægari en önnur heilbrigðisþjónusta í landinu.

Það er stefnumótandi ákvörðun að Landspítalinn fari úr 6,3% í 4,5% af útgjöldum hins opinbera. Slík breyting felur í sér þá sannfæringu fjárveitingarvaldsins að Landspítalinn sé síður nauðsynlegur fyrir íslenskt þjóðfélag en aðrar ríkisstofnanir. Þegar Landspítalinn lækkar úr 6,3% niður í 4,5% af útgjöldum ríkisins er verið að flytja peninga frá Landspítala til annarra ríkisstofnana sem fjárveitingarvaldið telur greinilega mikilvægari.

Það er ótrúlegt að svo veigamiklar ákvarðanir um fjárveitingar til Landspítala skuli hafa verið teknar án sérstakrar umræðu og án þess að opinber stefnumótun hafi farið fram. Afleiðingar þessara ákvarðana blasa við. Landspítalinn glímir við verstu kreppu í 80 ára sögu sinni og íslenskt heilbrigðiskerfi er að hrapa úr fremstu röð niður í aðra deild. Það mun skaða lífsgæði Íslendinga til langrar framtíðar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert