Hæstiréttur hafnaði beiðni Hraunavina

Unnið við Álftanesveg.
Unnið við Álftanesveg. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Hæstiréttur hefur staðfest niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um að ekki verði leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um það hvort Hraunavinir og þrenn önnur náttúruverndarsamtök eigi lögvarinna hagsmuna að gæta vegna lagningar nýs Álftanesvegar.

Málið tengist lagningu nýs Álftanesvegar á um 3,8 km kafla frá Engidal í Garðabæ að Suðurnesvegi á Álftanesi. Náttúruverndarsamtökin kveða nýja vegstæðið fara meðal annars um Gálgahraun, sem mun hafa verið á náttúruminjaskrá allt til þess að það var friðlýst 6. október 2009.

Í dómi Hæstaréttar er vísað til Árósasamningsins sem Ísland hefur fullgilt og voru efnisreglur samningsins leiddar í íslenskan rétt með setningu laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og laga nr. 131/2011 um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins, sem bæði öðluðust gildi 1. janúar 2012.

Árósasamningurinn er fjölþjóðlegur, svæðisbundinn samningur á sviði umhverfismála sem felur í sér þjóðréttarlegar skuldbindingar af hálfu aðildarríkjanna sem þeim ber að fylgja og koma til framkvæmda í landsrétti. Snýr hann meðal annars að skyldu aðildarríkjanna til að tryggja almenningi réttláta meðferð í málum sem varða umhverfið. „Meðal þess svigrúms sem Árósasamningurinn eftirlætur aðildarríkjunum er að meta við fullgildingu samningsins hvor af tveimur leiðum sem hann gerir ráð fyrir, stjórnsýsluleið eða dómstólaleið, henti betur í viðkomandi aðildarríki til að tryggja almenningi aðgang að réttlátri málsmeðferð. Hér á landi valdi löggjafinn stjórnsýsluleiðina,“ segir í dómi Hæstaréttar.

Þá segir að skuldbindingar Íslands á grundvelli Árósasamningsins og tilskipunar 2011/92/ESB, sem fól í sér endurútgáfu á tilskipun 85/337/EBE með síðari breytingum, séu skýrar og ótvíræðar og sé því ekki uppi sá vafi í málinu að nauðsynlegt sé að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um þau efnisatriði sem beiðni sóknaraðila lýtur að.

Veigamikið samfélagslegt hlutverk

Þegar málið var sent til dómstóla í september síðastliðnum sagði í tilkynningu frá samtökunum að umhverfisverndarsamtök á Íslandi gegni veigamiklu samfélagslegu hlutverki við hagsmunagæslu í þágu ósnortinnar náttúru og umhverfisverndar. „Í þeim þjóðréttarlegum skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist, s.s. með EES-samningnum og með fullgildingu Árósasamningsins, er þetta hlutverk viðurkennt og þar á meðal nauðsyn þess að umhverfisverndarsamtök hafi greiðan aðgang að réttarúrræðum og réttlátri málsmeðferð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert