Rannsóknarnefndir kosta 800 milljónir

Rannsóknarnefnd um Íbúðalánasjóð skilaði skýrslu í júlí sl.
Rannsóknarnefnd um Íbúðalánasjóð skilaði skýrslu í júlí sl. mbl.is/Styrmir Kári

Í frumvarpi til fjáraukalaga er sótt um 321,2 milljónir króna framlag vegna óleystrar fjárþarfar rannsóknarnefnda Alþingis.

Fram kemur, að nefnd um rannsókn á Íbúðalánasjóði og nefnd um rannsókn á orsökum og falli sparisjóðanna hafi verið skipaðar síðsumars 2011. Þeim var upphaflega ætlað að skila niðurstöðum í mars og júní 2012 en ljóst sé að bæði umfang og útgjöld hafi frá upphafi verið vanáætluð og hvorki verkáætlanir, tímaáætlanir né fjárhagsáætlanir hafi gengið eftir.

Í frumvarpinu segir, að nefnd um Íbúðalánasjóð hafi skilað skýrslu í júlí 2013 og áætlað sé að sparisjóðanefndin skili skýrslu undir lok nóvember 2013. Áfallinn kostnaður við starfsemi beggja nefndanna í lok ágúst hafi verið 722,2 milljónir kr. Þar af 234,6 milljónir vegna nefndar um Íbúðalánasjóð og 487,6 milljónir vegna nefndar um sparisjóðina. Áætluð viðbótarútgjöld til loka nóvember séu 80 milljónir.

Heildarkostnaður við starfsemi beggja nefndanna sé því áætlaður 802,2 milljónir eða 321,2 milljónir umfram 481 milljón í veittar fjárheimildir sem að hluta til hafi einnig verið ætlaðar til að hefja rannsókn á einkavæðingu bankanna.

„Forsætisnefnd Alþingis hefur ákveðið að rannsókn á einkavæðingu bankanna verði ekki hafin fyrr en að rannsókn á Íbúðalánasjóði og rannsókn á falli sparisjóðanna verði lokið og verður reynsla af vinnu nefndanna nýtt við undirbúning frekari rannsókna. Fyrirséð er að síðarnefndu rannsókninni lýkur ekki fyrr en seint á þessu ári og mun rannsókn á einkavæðingu bankanna ekki geta hafist fyrr en á næsta ári, verði fé veitt til þess á fjárlögum. Helstu kostnaðarliðir beggja nefndanna hafa verið laun og aðkeypt sérfræðiþjónusta,“ segir í frumvarpi til fjáraukalaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert