Yfirmat í máli Annþórs og Barkar

Börkur Birgisson leiddur fyrir Hæstarétt.
Börkur Birgisson leiddur fyrir Hæstarétt. mbl.is

Héraðsdómur Suðurlands hefur fallist á kröfu verjenda Annþórs Kristjáns Karlssonar og Barkar Birgissonar um að dómkvaddir verði yfirmatsmenn til að svara spurningum vegna matsgerðar réttarmeinafræðings og tveggja sálfræðinga. Annþór og Börkur eru ákærðir fyrir að valda dauða samfanga 17. maí 2012.

Það var rétt fyrir klukkan átta þann 17. maí í fyrra að lögreglu var tilkynnt um að endurlífgun stæði yfir í fangelsinu að Litla-Hrauni á fanganum Sigurði Hólm Sigurðssyni. Hann hafði verið fluttur í fangelsið daginn áður og verið í mikilli fíkniefnaneyslu.

Fangi hafði skömmu áður komið að honum þar sem hann hafi verið búinn að kasta upp og korrað hafi í honum. Endurlífgun bar ekki árangur og var Sigurður úrskurðaður látinn á vettvangi.

Fáeinum dögum síðar hafði réttarmeinafræðingur samband við lögreglu og kvaðst hafa komist að þeirri niðurstöðu að Sigurður hefði látist af völdum innvortis áverka sem stafað hafi af sprungnu milta og rifinni æð og væri áverkinn talinn af völdum þungs höggs.

Eftir að upptökur úr eftirlitsmyndavélum voru skoðaðar bárust böndin að Annþóri og Berki. Þeir voru síðar ákærðir fyrir að hafa veitt Sigurði högg sem leiddi til dauða hans.

Svigrúm sakborninga til að afla sönnunargagna

Við fyrirtöku í sakamálinu á hendur Annþóri og Berki í byrjun október var tekist á um hvort fá eigi erlenda sérfræðinga til að fara yfir mat réttarmeinafræðings á krufningarskýrslu og yfir skýrslu tveggja prófessora í sálfræði sem dómkvaddir voru til að greina atferli fanga á upptökum úr öryggismyndavélum.

Verjendur rökstuddu kröfu sína meðal annars með þeim hætti að niðurstaða krufningarskýrslu og réttarmeinafræðings sé frábrugðin og það eitt sé nóg til að fleiri þurfi til að fara yfir málið. Þá hafi engir matsfundir verið haldnir og sé mat Þóru því meingallað að formi og efni.

Hvað varðar atferlisskýrslu Gísla Guðjónssonar og Jóns Friðriks Sigurðssonar, en þeir rýndu í atferli og samskipti fanga á upptökum úr öryggismyndavélum, sögðu verjendur að skýrslan geti ekki haft vægi í málinu en úr því hún hafi verið lögð fram sé nauðsynlegt að fá yfirmat á henni.

Í úrskurði héraðsdóms er fallist á kröfu verjenda Annþórs og Barkar. Í niðurstöðu úrskurðarins segir að ekki verði fullyrt að umbeðnar matsgerðir séu þarflausar og kunni þær að upplýsa málið umfram það sem rannsókn lögreglu hefur gert. Að því virtu og með vísan til þess svigrúms sem játa verði sakborningum til að afla sönnunargagna í sakamáli verði fallist á kröfuna.

Ákvörðun um það hverjir verði skipaðir matsmenn bíður dómkvaðningar.

Saksóknari í málinu hefur tekið sér frest til að ákveða hvort úrskurðurinn verði kærður til Hæstaréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert