ESB brýtur gegn samningnum

AFP

Fram kemur í rammasamningi íslenskra stjórnvalda við Evrópusambandið um svokallaða IPA-styrki, sem ætlað er að undirbúa ríki fyrir inngöngu í sambandið, að jafnvel þó samningnum verði sagt upp skuli yfirstandandi verkefnum í tengslum við hann halda áfram í samræmi við ákvæði hans þar til þeim er lokið.

Ekki verður því betur séð en að sú ákvörðun Evrópusambandsins að stöðva IPA-styrki til þeirra verkefna sem upplýst var um í kvöld sé brot á umræddum rammasamningi sem samþykktur var með þingsályktunartillögu á Alþingi 18. júní 2012. Fram kemur í 23. grein samningsins að gildistími samningsins sé ótímabundinn nema annars aðili hans segi honum upp með skriflegri tilkynningu líkt og Evrópusambandið hefur nú gert. Síðan segir:

„Þrátt fyrir að rammasamningi þessum sé sagt upp skal yfirstandandi stuðningsaðgerðum haldið áfram samkvæmt rammasamningi þessum og öllum sviðstengdum samningum og fjármögnunarsamningum uns þeim aðgerðum er lokið.“ Engir fyrirvarar eru tilgreindir í þeim efnum.

Síðastliðið sumar ákvað Evrópusambandið að stöðva IPA-styrki til verkefna á Íslandi sem ekki hafði þá verið undirritaður samningur um. Fram kom í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu af því tilefni að ákvörðunin hefði ekki áhrif á verkefni vegna ársins 2011 utan eitt en stöðvuðu hins vegar verkefni vegna ársins 2012 og 2013.

Verkefnin sem Evrópusambandið hefur nú ákveðið að hætta við að styrkja einhliða og fyrirvaralaust að sögn utanríkisráðuneytisins eru vegna ársins 2011. Ekki hefur náðst í Gunnar Braga Sveinsson, utanríkisráðherra, vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert