Tekist á um fjármál Ríkisútvarpsins

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Stendur hæstvirtur ráðherra á bak við stjórnarformann sinn í þessum aðgerðum? Treystir hæstvirtur ráðherra sér til að bera ábyrgð á stjórnarformanni sínum og útvarpsstjóranum eins og að þessu er staðið? Leggur ráðherra blessun sína yfir þetta allt saman, þar með talið útreiðina á Rás 1? Og það þýðir ekki fyrir ráðherra, eða þess vegna útvarpsstjóra, að vísa hvor á annan.“

Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í dag í sérstakri umræðu um starfsmannamál Ríkisútvarpsins sem hann var málshefjandi að. Fór hann hörðum orðum um það hvernig staðið var nýverið að uppsögnum 60 starfsmanna Ríkisútvarpsins og öðrum niðurskurði hjá stofnuninni og beindi máli sínu og spurningum að Illuga Gunnarssyni, menntamálaráðherra.

Sakaði Steingrímur ráðherrann um að hafa skipað pólitíska stjórn fyrir Ríkisútvarpið og vísaði þar ekki síst til stjórnarformannsins Ingva Hrafns Óskarssonar. Hann spurði ennfremur hvort Illugi ætlaði að beita sér fyrir því að eitthvað yrði bætt úr fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins áður en gengið yrði frá fjárlagafrumvarpinu svo draga mætti að minnsta kosti eitthvað úr niðurskurði á Ríkisútvarpinu og helst öllum.

Fyrri stjórn velti vandanum yfir á næstu

„Fyrst hvað varðar það hvort ég beri traust til stjórnarformanns Ríkisútvarpsins þá ber ég að sjálfsögðu fullt traust til hans,“ sagði Illugi. Hann benti ennfremur á að ríkisframlag til Ríkisútvarpsins hefði lækkað um tæplega einn milljarð króna í tíð síðustu ríkisstjórnar, sem Steingrímur hefði setið í, miðað við verðlag þessa árs. Fyrir vikið hafi stofnunin orðið að treysta í vaxandi mæli á auglýsingatekjur.

„Síðan er tekin ákvörðun um það af hálfu fyrrverandi ríkisstjórnar að segja: Jæja, nú skulum við draga úr þætti auglýsinganna og í staðinn komum við með meiri peninga úr ríkissjóði inn í Ríkisútvarpið. Og hver átti að sjá um þá fjármögnun? Hver átti að leysa það verkefni? Það var auðvitað næsta ríkisstjórn,“ sagði ráðherrann. Búið hafi þannig verið að setja lög um að draga úr umsvifum Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Spurningin væri sú hvort ríkið væri í aðstöðu til þess að setja meira fé í stofnunina.

Svarið við þeirri spurningu sæist á stöðu ríkissjóðs eins og hún birtist í stöðu ríkisfjármála á þessu ári. Þá benti hann á að það hefði vitanlega haft áhrif á aðra fjölmiðla sem treystu á auglýsingatekjur þegar Ríkisútvarpið þurfti að auka umsvif sín á auglýsingamarkaði. Þannig hefði orðið 40% fækkun á fjölda starfsmanna 365 miðla frá árinu 2006. Þá hefði hliðstæð fækkun orðið á Morgunblaðinu. Sagðist hann fullviss um að fjármunir væru til staðar hjá Ríkisútvarpinu til þess að sinna því hlutverki sem það þyrfti að sinna.

Sökuðu ráðherrann um að dvelja í fortíðinni

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, tók meðal annarra til máls í umræðunni og hafnaði því að niðurskurðurinn til Ríkisútvarpsins í tíð síðustu ríkisstjórnar, þar sem hún gegndi embætti menntamálaráðherra, hefði verið tæpur milljarður á verðlagi þessa árs. Sagði hún réttu töluna vera 366 milljónir króna miðað við verðlag ársins 2013. Þá væri hún ekki að taka inn í myndina þann hálfa milljarð sem settur hafi verið inn í Ríkisútvarpið sem nýtt eiginfjársframlag á síðasta kjörtímabili. Gagnrýndi hún Illuga fyrir að dvelja í fortíðinni en það sem þyrfti að gera væri að horfa til framtíðar. Það væri val ríkisstjórnarinnar að standa að málum gagnvart Ríkisútvarpinu eins og gert hefði verið og hún gæti ekki kennt öðrum um það.

Steingrímur gagnrýndi Illuga að sama skapi fyrir að dvelja í fortíðinni. En ef hann trúði sjálfur því sem hann hefði sagt um síðasta kjörtímabil hlyti hann að spyrja sig hvort ekki hafi verið nóg að gert þá. Sakaði hann ráðherrann um að hafa á stuttum embættistíma sínum tekist að koma málum Ríkisútvarpsins í uppnám. Spurði hann hvort fullt traust til stjórnarformanns stofnunarinnar þýddi að hann legði blessun sína yfir þær aðgerðir sem gripið hefði verið til innan hennar.

Ekki hægt að seilast dýpra í vasa almennings

Illugi sagði þær tölur sem hann nefndi um framlög til Ríkisútvarpsins væri byggðar á ársreikningum stofnunarinnar og væru einfaldlega staðreynd. Hann ítrekaði að staða ríkissjóðs væri ekki góð. Það væru einfaldlega ekki til peningar til þess að setja aukalega inn í Ríkisútvarpið. Ekki væri hægt að seilast dýpra í vasa almennings. Þess vegna yrði stofnunin að fást við þennan niðurskurð. Hann ítrekaði hins vegar að ef hlutverk Ríkisútvarpsins væri sett í samhengi við aðra listastarfsemi í landinu væri ljóst að það væri fullfært að sinna þeim verkefnum sem því væri ætlað samkvæmt lögum.

Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra.
Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert