Aldrei meiri heitavatnsnotkun

Það hafa verið miklar frosthörkur á landinu undanfarna daga.
Það hafa verið miklar frosthörkur á landinu undanfarna daga. mbl.is/Styrmir Kári

Heitavatnsnotkun á höfuðborgarsvæðinu nú í kuldakastinu náði 16.000 rúmmetrum á klukkustund þegar rennslið var mest, nú um klukkan hálfníu í morgun. Afl þeirrar orku sem hitaveitan var þá að flytja svarar til um 930 megavatta.

Það slagar hátt í samanlagt afl Kárahnjúkavirkjunar og Búrfellsvirkjunar, að því er segir í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur.

Fram kemur, að veðrið sé veigamesti áhrifaþáttur heitavatnsnotkunar á höfuðborgarsvæðinu enda fari um 90% heita vatnsins í að hita hús en tíundi hluti þess til baða, þvotta og annarra nota. Um mánaðamótin, þegar hitinn hafi verið nokkrum gráðum yfir frostmarki, hafi rennslið inn á hitaveituna á höfuðborgarsvæðinu verið um 10.000 tonn á hverri klukkustund.

„Þegar kuldakastið hófst um miðja vikuna tók notkunin mikinn kipp og klukkan 8:30 í morgun fór rennslið yfir 16.000 rúmmetra á klukkustund. Það er mesta rennsli sem nokkru sinni hefur mælst. Fyrra met var frá því í febrúarbyrjun 2008, þegar það varð mest 15.600 rúmmetrar á klukkustund.

Það er mikil orka í öllu þessu heita vatni og svarar aflið í þessum 16.000 tonnum á klukkustund til liðlega 930 megavatta afls. Til samanburðar er samanlagt afl tveggja stærstu vatnsaflsvirkjana landsins 960 megavött. Þetta eru Kárahnjúkavirkjun (690 MW) og Búrfellsvirkjun (270 MW),“ segir í tilkynningu frá OR.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert