RÚV nýtur mests trausts

Ríkisútvarpið
Ríkisútvarpið mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Fréttastofa RÚV nýtur mest trausts samkvæmt nýrri könnun MMR. Af þeim fréttamiðlum sem kannaðir voru báru svarendur mest traust til fréttamiðla RÚV. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 76,5% bera mikið traust til Fréttastofu RÚV og og 71,1% sagðist bera mikið traust til ruv.is.

Samkvæmt tilkynningu frá MMR var könnun gerð 26. 28. nóvember sl. en hinn 27. nóvember var 39 starfsmönnum RÚV sagt upp störfum.

Í flokki netfréttamiðla naut mbl.is næstmest trausts meðal almennings (á eftir ruv.is). Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 50,2% bera mikið traust til mbl.is. Traust til mbl.is hefur dregist nokkuð saman frá því í desember 2008 þegar 64,0% aðspurðra sögðust bera mikið traust til mbl.is.    

Netfréttamiðillinn Visir.is naut einnig nokkurs trausts meðal svarenda og hefur traust til Visir.is aukist frá maí 2009 þegar 24,4% þeirra sem tóku afstöðu sögðust bera mikið traust til Visir.is, borið saman við 35,3% nú.

Þeir prentmiðlar sem nutu mest trausts meðal almennings voru Morgunblaðið og Fréttablaðið. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 46,4% bera mikið traust til Morgunblaðsins en 39,2% sögðust bera mikið traust til Fréttablaðsins. Hlutfallslega fleiri sögðust bera lítið traust til Morgunblaðsins en til Fréttablaðsins. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 26,1% bera lítið traust til Morgunblaðsins en 20,7% sögðust bera lítið traust til Fréttablaðsins. Traust til Morgunblaðsins hefur minnkað nokkuð frá desember 2008 þegar 64,3% sögðust bera mikið traust til Morgunblaðsins.

Traust til Viðskiptablaðsins hefur aukist nokkuð frá því í maí 2009 þegar 21,8% þeirra sem tóku afstöðu sögðust bera mikið traust til Viðskiptablaðsins, borið saman við 30,6% nú.

Sjá nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert