Klippa heima á atvinnuleysisbótum

Jón segir ljóst að margir í faginu svíki undan skatti …
Jón segir ljóst að margir í faginu svíki undan skatti og klippi fólk í heimahúsi, jafnvel án þess að hafa lokið prófi í faginu og þiggi atvinnuleysisbætur um leið. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Ástæðan fyrir því að við getum ekki tekið nema er sú að við höfum ekki efni á að greiða þeim launin sín, hvað þá að borga launatengdu gjöldin og tryggingagjaldið til að fóðra fólkið sem klippir í heimahúsum,“ segir hársnyrtimeistarinn Jón Aðalsteinn Sveinsson, betur þekktur sem Nonni á hárgreiðslustofunni KRISTU/Quest. Hann situr meðal annars í starfsgreinaráði og er formaður Meistarafélags hársnyrta. 

Jón segir ljóst að margir í faginu svíki undan skatti og klippi fólk í heimahúsum, jafnvel án þess að hafa lokið prófi í faginu, og þiggi atvinnuleysisbætur um leið.

Fáir ljúka sveinsprófi

Að sögn Jóns luku 596 nemar sveinsprófi í hársnyrtingu á árunum 2001 til 2012 en á sama tíma voru gerðir 939 samningar við nema í faginu. „Það voru aðeins 596 sem fóru alla leið og luku menntuninni,“ segir hann og veltir fyrir sér hvar allt þetta fólk er í dag. Í fyrra voru að meðaltali 95 manns atvinnulausir af þeim sem leggja stund á hársnyrtingu og veltir Jón fyrir sér hvort þetta fólk þurfi í raun að vera atvinnulaust, hvort það velji ef til vill að vera heima og klippa þar.

Jón gagnrýnir tryggingagjaldið og segir það hátt. „Ég get ekki tekið fólk í vinnu því það er svo dýrt fyrir mig að borga þeim sem er heima að klippa tryggingagjaldið,“ segir Jón. Tryggingagjald er gjald sem launagreiðendur greiða af heildarlaunum launaþega sinna og er það meðal annars notað til að greiða atvinnuleysisbætur. 

„Einyrkjar eiga miklu erfiðara með að taka nema, þeir eru einir og eiga erfitt með að greiða launin sem neminn á að fá, auk launatengdu gjaldanna sem fylgja nemunum og þar kemur tryggingagjaldið inn,“ segir Jón.

„Það þarf vitundarvakningu“

Að sögn Jóns sést reglulega og heyrist af hársnyrtifólki sem vitað er að þiggur atvinnuleysisbætur en klippir í heimahúsi. Auðvelt er að sjá á fingrum og nöglum fólks ef það hefur verið að vinna með efni tengd hársnyrtingunni og reglulega sjáist til þessa fólks með litinn undir nöglunum. Því er ljóst að margir klippa einstaklinga í heimahúsi og svíkja þannig undan skatti, að sögn Jóns. 

„Þetta er ástæðan fyrir því að við getum ekki tekið nema, við höfum ekki efni á að greiða þeim launin sín, hvað þá að borga launatengdu gjöldin og tryggingagjaldið til að fóðra fólkið sem klippir í heimahúsum,“ segir Jón. Aðspurður segir hann að lítið sé hægt að gera varðandi þá sem klippa í heimahúsum og vísar þar í friðhelgi einkalífsins. „Það þarf vitundarvakningu, svo fólk sé ekki að standa í þessu.“

Jón segir að einnig virðist vera nokkuð um að fólk sem rekur hársnyrtistofur leigi stóla til annarra sem hafa ekki lokið sveinsprófi, jafnvel ekki burtfararprófi úr iðngrein í framhaldsskóla. „Þetta fólk gerir sig samt út fyrir að vera sveinn og vinnur þá ólöglega,“ segir hann og bætir við að kærumál séu í gangi vegna slíks máls. Jón segist fá margar ábendingar um einstaklinga sem klippa svart eða starfa á stofum sem sveinar án þess að hafa réttindin og felur hann lögfræðingi hjá Samtökum iðnaðarins að kanna þær.

Mikilvægt að skoða eftirspurnina

Í október var greint frá því að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefði hafið vinnu við gerð frumvarps til breytinga á iðnaðarlögum, en meðal annars hefur verið rætt um að fella niður lögverndun nokkurra iðngreina, þar á meðal ljósmyndunar og kökugerðar (konditori). Jón gagnrýnir þetta  og leggur áherslu á mikilvægi þess að menn hafi fullnægjandi þekkingu á því sem þeir taka sér fyrir hendur.

Í aðsendri grein Sigurðar Más Guðjónssonar sem birtist nýlega í Morgunblaðinu segir að það sem hafi veitt iðngreinum ákveðna sérstöðu í gegnum tíðina er að þær fjöldaframleiða ekki iðnaðarmenn, nemarnir eru að hluta til menntaðir í iðnfyrirtækjunum sjálfum og takmarkast fjöldi þeirra því af vexti og viðgangi viðkomandi greinar.

Jón tekur undir þetta og segir einnig mikilvægt að skoða eftirspurnina eftir fólki á atvinnumarkaðinn. Nefnir hann sem dæmi að nemendur í hársnyrtingu í skólum landsins hafi verið 196 í haust en á sama tíma eru að meðaltali hátt í 100 á atvinnuleysisskrá í hverjum mánuði. Árið 2012 voru 290 nemendur í hársnyrtingu í skólum landsins en aðeins um 100 til 120 stofur geta tekið nema. Ef til vill er meiri eftirspurn eftir fólki í aðrar greinar og það þurfi því að skoða eftirspurnina hverju sinni þegar fólki er beint inn í skólana.

Jón segir mikilvægt að skólarnir, menntamálaráðuneytið og atvinnulífið vinni saman eins og smurð vél í þessum málum, ræði saman og taki á málunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert