Framlög til Íbúðalánasjóðs verði hækkuð

Vigdís Hauksdóttir er formaður fjárlaganefndar.
Vigdís Hauksdóttir er formaður fjárlaganefndar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lagt er til að 480 milljóna króna framlag vegna verkefnisins Nám er vinnandi vegur verði fellt niður. Þetta er meðal þess sem kemur fram í tillögum meirihluta fjárlaganefndar við frumvarp til fjáraukalaga og dreift var á vef Alþingis í kvöld. Áætlanir gerður ráð fyrir að fleiri nemendur nýttu sér úrræðið en raunin varð og varð fjárþörf vegna átaksins mun minni en upphaflega áætlað var.

Lagt er til að 45 milljónir fari til eflingar frumgreinanáms hjá Háskólanum á Bifröst, Háskólanum í Reykjavík og Keili. Þá er lagt til að 235 milljónir fari til Fræðslusjóðs vegna aukins námsframboðs og raunfærnimats og að 200 milljónir króna fari til aðgerða gegn brotthvarfi úr framhaldsskólum.

Lagt er til að heimild til greiðslu á framlagi til Íbúðalánasjóðs hækki um 175,5 milljón króna frá því sem gert er ráð fyrir í fjárlögum. Í fjárlögum var gert ráð fyrir heimild að fjárhæð 441,1 milljónir en við yfirferð á útreikningum sem Íbúðalánasjóður hefur lagt fram er gert ráð fyrir að greiðsla ríkissjóðs verði 617 milljónir á árinu 2013 og er því lagt til að greiðsluheimildin verði hækkuð.

Framlög til Tækniþróunarsjóðs verði hækkuð

Lagt er til að fallið verði frá 46,7 milljóna króna fjárveitingu vegna tapaðrar bótakröfu á hendur fyrrverandi starfsmanni sendiráðs Íslands sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu.

Þá leggur meirihluti nefndarinnar einnig til að 7,5 milljón verði veitt vegna vinnu erlendrar ráðgjafarstofu í tengslum við viðræður Íslands um makrílveiðar. Þann 8. október sl. samþykkti ríkisstjórnin að ganga frá samningi við erlenda ráðgjafarfyrirtækið Burson-Marsteller um ráðgjöf vegna makrílviðræðna. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið ber þennan kostnað vegna ráðgjafar í makríldeilunni.

Lagt er til að veitt verði 35 m.kr. framlag til að standa straum af kostnaði Hafrannsóknastofnunar vegna ársfundar Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) sem fór fram hér á landi í september 2013. Um 700 manns sóttu ársfundinn í fimm daga, auk þriggja viðbótardaga þar sem 150 manns tóku þátt í ýmsu nefndarstarfi. Fundurinn var haldinn í ráðstefnuhúsinu Hörpu.

Þá er lagt til að fjárheimild Tækniþróunarsjóðs hækki um 150 milljónir króna.

Samkvæmt áliti meirihluta fjárlaganefndar minnkar hallinn um tæpa tvo milljarða frá frumvarpinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert