Minni spámenn gefa skýrslu

Komið með Stefán Loga fyrir dómara í morgun.
Komið með Stefán Loga fyrir dómara í morgun.

Aðalmeðferð yfir Stefáni Loga Sívarssyni, Stefáni Blackburn og þremur öðrum karlmönnum hófst í morgun. Þeir eru meðal annars ákærðir fyrir frelsissviptingu og stórfelldar líkamsárásir. Ákveðið var að bíða með að taka skýrslur af aðalmönnunum tveimur og hafa hinir þrír því aðeins komið fyrir dómara.

Vart er hægt að segja að mikið hafi verið á því að græða að hlusta á vitnisburð mannanna þriggja, Davíðs Freys Magnússonar, Hinriks Geirs Helgasonar og Gísla Þórs Gunnarssonar. Og jafnvel þótt þeir séu ákærðir fyrir mjög alvarleg afbrot virðist sem áherslan sé lögð á Stefán Loga og Stefán Blackburn.

Mennirnir þrír sögðust annaðhvort hafa verið undir áhrifum vímuefna eða hreinlega að þeir muni ekki atvik. Og á stundum báru þeir við að geta ekki munað atvik vegna þess að þeir hafi verið undir áhrifum vímuefna. „Þetta er í þoku og ég sofnaði á tímabili,“ sagði Davíð meðal annars en hann kannaðist þó við að hafa saumað saman vör á öðru fórnarlambinu í málinu. „Hún lafði bara vörin. Þetta var það sem eina sem mér datt í hug. Ég var svo lyfjaður á því.“

Þá viðurkenndi hann að farið hafi verið með sama fórnarlamb niður í kjallara húss á Stokkseyri, að hann hafi verið afklæddur og settur í ruslapoka og hýddur. En hver hýddi hann? „Ég kýs að tjá mig ekki um það.“ Og það var ekki í eina skiptið sem hann kaus það.

Og hvers vegna var fórnarlambið sett í ruslapoka? „Við vorum mökkaðir á því.“

Fram kom í máli mannanna að taumlaus neysla vímuefna hefði verið þessa helgi, síðustu helgina í júní, þegar atvik gerðust. Þeir neituðu allir sök og sögðu að aldrei hefði verið um frelsissviptingu að ræða. Og þó þeir hafi jafnvel viðurkennt að hafa veitt fórnarlömbum í málinu eitt eða tvö högg þá hafi Stefán Logi og Stefán Blackburn hvergi komið nærri ofbeldi eða ákvörðun um ofbeldi.

Hins vegar kom fram í máli þeirra að lögreglu hefði greinlega verið mikið í mun að „ná“ Stefáni Loga og Stefáni Blackburn. Skýrslutökur hafi gengið út á það. „Þeir fóru heim til kærustunnar minnar tvisvar, heim til tengdaforeldra minna og mömmu og pabba,“ sagði Davíð og bar við að hann hefði fengið gylliboð frá lögreglumönnum til að tryggja að Stefán Logi væri tekin úr umferð.

Þeir sögðu allir að lögregluskýrslur hefðu verið gefnar undir miklum þrýstingi og þeim hefði verið lofað frelsi fyrir vitnisburð gegn Stefáni Loga. Þeir hafi því sagt það sem þeir sögðu til að tryggja það. Mennirnir eru engu að síður allir í gæsluvarðhaldi. 

Aðalmeðferð heldur áfram og enn eiga eftir að gefa skýrslu Stefán Logi, Stefán Blackburn, fórnarlömb og vitni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert