Samþykktu 5% viðbótarniðurskurð

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar.
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Skrifstofum ráðuneyta verður gert að skera niður um 5% í rekstri á næsta ári. Frá þessu er greint í breytingartillögum meirihluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarpið 2014 sem kom inn til 2. umræðu á Alþingi í dag. Kemur þetta til viðbótar við þegar ráðgerðan niðurskurð hjá ráðuneytunum.

Þá verður aukafjárveiting síðasta árs til skrifstofu utanríkisráðuneytisins afturkölluð.

Áliti meirihlutans í fjárlaganefnd á fjárlögunum var dreift á Alþingi fyrir stundu og gaf Vigdís Hauksdóttir, formaður nefndarinnar, kost á viðtali þegar þingheimur hafði fengið álitið í hendur.

Að hennar sögn stendur til að auka fjárveitingu til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni um 405 milljónir og um 200 milljónir til að færa til hjúkrunarrými á landinu öllu, í þágu fólks á landsbyggðinni. Verður samtals rúmum fjórum milljörðum varið í aukafjárveitingar til heilbrigðiskerifisins og fer stærstur hlutinn til Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri.

Þróunaraðstoð minnkuð um hálfan milljarð

Skorið verður í þróunaraðstoð um 460 milljónir króna þannig að fjárveiting til málaflokksins á næsta ári lækkar úr 5,5 milljörðum í um 5 milljarða króna. Verður aðstoðin þá til jafns við það sem hún var 2011 og 2012, að sögn Vigdísar. 

„Við drögum til baka þá miklu aukningu sem varð í þróunaraðstoð á síðasta kjörtímabili og færum hana aftur til ársins 2011 og 2012,“ segir Vigdís.

Þá verða vaxtabætur á þá tekjuhæstu lækkaðar og er stefnt að því að lækka þennan útgjaldalið eftir því sem áhrif skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar koma fram.

Þá var samþykkt 100 milljón króna fjárveiting til Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Er fjárveitingin hluti af samkomulagi sem felur í sér að sveitarfélögin á Suðurlandi leggja 260 milljónir króna á móti og er fénu ætlað að efla verknám við skólann. Er það hluti af þeirri stefnumörkun í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að efla skuli verknám.

Aukafjárveiting til dreifnáms

Þá verður 25 milljón krónum varið aukalega til svonefnds dreifnáms en því er ætlað að gera ungmennum kleift að stunda nám lengur í sinni heimabyggð.

Að sögn Vigdísar eru tekjur meiri en áætlað var. Þá verður gefin heimild til sölu á kolefniskvótum sem skila mun ríkinu tekjum.

Einnig má nefna að meirihluti nefndarinnar samþykkti 10 milljón króna aukafjárveitingu til Kvennaathvarfsins í Reykjavík.

Vigdís segir að um nýmæli sé að ræða við gerð fjárlaga, enda hafi meirihlutinn í fjárlaganefnd lagt til hagræðingartillögur sem skapað hafi meira svigrúm til hagræðingar en útlit var fyrir í upphafi. Því sé hægt að „veita fé til fjölþættari verkefna en upphaflega stóð til.“

„Ég gleðst yfir því hvað fjárlagafrumvarpið tók miklum breytingum milli 1. og 2. umræðu, til bóta fyrir landsmenn alla,“ segir Vigdís.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert