Óljóst hvenær umræðum um fjárlög lýkur

Þingmenn í þungum þönkum fylgjast með umræðunni um fjárlögin.
Þingmenn í þungum þönkum fylgjast með umræðunni um fjárlögin. mbl.is/Golli

Óvíst er hvenær umræðum um fjárlagafrumvarpið lýkur að sögn Einars K. Guðfinnssonar, forseta Alþingis. Hann segir að umræðurnar um það standi til klukkan fimm í dag en segir að ekki sé gert ráð fyrir því að atkvæðagreiðsla fari fram. Þing muni svo koma saman á mánudag. Hann segir að ekki sé orðið ljóst hvernig dagskráin líti út að loknum umræðum um fjárlög. Óformlegar viðræður hafi farið fram við þingflokksformenn um dagskrána en niðurstaða liggi ekki fyrir.

Deilt um forgangsröðun

Önnur umræða um fjárlagafrumvarpið hélt áfram í gær og stóð fram á kvöld. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, sagði að það væri til marks um forgangsröðun í grunnþjónustunni en óþarfanum sleppt. „Við náum að snúa af braut hömlulausra útgjalda í ríkisrekstri í það að skila hallalausum fjárlögum og meira að segja skila örlitlum afgangi.“ Þá sagði hún að núverandi ríkisstjórn hefði tekið við villandi búi hvað varðaði rekstur ríkissjóðs. Samkvæmt fjárlögum síðasta árs hefði halli átt að vera 3,7 milljarðar króna en hefði í raun verið 25,5 milljarðar kr. „Stafar það helst af því að tekjuáætlun fyrri ríkisstjórnar var byggð á lofti og var innistæðulaus með öllu,“ sagði Vigdís.

Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar, gerði athugasemdir við orðaval Vigdísar.

„Við erum búin að skera niður frá því að vera með 14% halla á landsframleiðslu niður í 1%. Við erum að tala um að menn hafi tekið við villandi búi, hvað sem það þýðir. Að tekjuáætlun á þessu ári hafi verið byggð á lofti, innhaldslaus með öllu, eins og hér er sagt. Ég verð að biðjast undan svona málflutningi,“ sagði hann. Vinstri græn gerðu meðal annars komugjöld á þá sem leggjast inn á sjúkrahús að umfjöllunarefni. „Hér er um að ræða grundvallarbreytingu á fjármögnun heilbrigðiskerfisins sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggst algerlega gegn,“ sagði Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert