„Skammaðist þingmaðurinn sín þá?“

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég skammast mín fyrir að þetta séu tillögur frá Íslandi,“ sagði Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, við aðra umræðu um frumvarp til fjárlaga sem nú fer fram á Alþingi. Þar ræddi hún m.a. sérstaklega niðurskurð til þróunarmála. Rakti hún tillögur meirihluta fjárlaganefndar um niðurskurð til málaflokksins en bætti svo við: „En við ætlum að auka fjárveitingu í markaðssetningu á íslenskum matvælum á erlendri grundu upp á átján milljónir.“

Sigríður Ingibjörg sagði að hún og hópur annarra þingmanna hefði heimsótt Sameinuðu þjóðirnar í New York í haust en m.a. er lagt til að skorið verði niður í framlögum til UN Women. „Við vorum verulega stolt af því að vera Íslendingar þegar við heimsóttum þessar stofnanir.“ Lýsti hún því svo í hvað fjármunirnir hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna væru  nýttir og tók sem dæmi aðstoð við konur sem hafa orðið fyrir miklum skaða á kyn- og þvagfærum við barnsburð. „En við ætlum að skera það niður og nota kannski til markaðssetningar á matvælum erlendis.“

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, þakkaði Sigríði Ingibjörgu fyrir ræðuna „þó að hún hafi nú verið nokkuð brotakennd og svona ruglingsleg á köflum. En eitt mátti þó háttvirtur þingmaður eiga, síðasti hluti ræðunnar var nánast samhljóða ræðu háttvirts þingmanns Steingríms J. Sigfússonar sem hann flutti í gærkvöldi.“

Vigdís sagðist vilja benda Sigríði Ingibjörgu á að framlög Íslands til þróunarmála nemi samkvæmt fjárlagatillögunum nú 0,23% af vergum þjóðartekjum. Það sé meira en  ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna lagði til málaflokksins á árinu 2012. „Skammaðist þingmaðurinn sín þá?“ spurði Vigdís. „Það er nefnilega svo að sannleikurinn bítur í skottið á þeim sem fer illa með hann.“

Sigríður Ingibjörg svaraði fyrir sig og minnti á að Vigdís hefði ein þingmanna ekki greitt með  þingsályktunartillögu í desember á síðasta ári þar sem kveðið var á um hækkun framlaga til þróunarmála. Eðlilegt væri að veita fé til þróunarmála í samræmi við þann vilja þingsins sem fram kom í ályktuninni.

„Að fara með hálfsannleik er næsti bær við það að segja ósatt,“ svaraði Vigdís. Hún sagði að ákveðnir fyrirvarar hafi verið á þingsályktunartillögunni á þá leið að ef ekki væri forsendur til í þjóðarbúskapnum að hækka framlög til þróunarmála þá yrði sú leið ekki farin.

Önnur umræða um fjárlög stendur enn. 

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert