ESB sjálft slitið viðræðunum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Rósa Braga

„Hins vegar má líta svo á að Evrópusambandið hafi sent Íslendingum þau skilaboð að það líti svo á að viðræðum Íslands við Evrópusambandið sé lokið með ákvörðuninni sem Evrópusambandið tók varðandi IPA-styrkina,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í umræðum á Alþingi í dag og vísaði þar til IPA-styrkja ESB sem ætlað er að undirbúa ríki fyrir inngöngu í sambandið.

Forsætisráðherra var þar að svara fyrirspurn frá Róberti Marshall, þingmanni Bjartrar framtíðar, sem óskaði eftir skýringum Sigmundar á stöðu umsóknar Íslands um inngöngu í ESB. Sagði hann Bjarta framtíð vera ánægða með að aðeins hefði verið gert hlé á viðræðunum við sambandið sem þýddi að nýr þingmeirihluti gæti tekið upp þráðinn að nýju. Gagnrýndi hann ráðherrann annars fyrir að halda því fram að ESB hefði stöðvað viðræðurnar þegar ljóst væri að stjórnvöld hefðu sjálf tekið skref í þá áttina.

Telur Ísland ekki vera á leiðinni í ESB

Sigmundur sagði að ákvörðun ESB um að hætta við alla IPA-styrki til Íslands, jafnvel þá sem þegar hefði verið samið um, benti í það minnsta ekki til þess að sambandið teldi að Íslendingar væri á leiðinni í það. „Ef Evrópusambandið heldur sig við þessa stefnu, að það sé engin ástæða til að klára það sem lagt var af stað [með] hér, þá er ekki hægt að túlka það öðruvísi en að Evrópusambandið telji að það stefni ekki í aðild Íslands að Evrópusambandinu.“

Forsætisráðherra sagði stefnu ríkisstjórnarinnar hins vegar óbreytta. Unnið væri að skýrslu um stöðu umsóknarinnar um inngöngu í ESB og stöðu mála innan sambandsins sem kynnt yrði þegar hún lægi fyrir og síðan rædd í þinginu. „Þegar niðurstaða þeirrar vinnu liggur fyrir þá munum við að sjálfsögðu taka það til umræðu hér í þinginu og ræða næstu skref.“

Fyrr í umræðunni spurði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, Sigmund hvort hann hefði óskað eftir því við José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB, á fundi þeirra síðastliðið sumar að IPA-styrkirnir yrðu áfram greiddir af hálfu sambandsins. Forsætisráðherra sagðist hafa gert það. Hann hafi ekki verið hrifinn af tilgangi styrkjanna en talið eðlilegt að staðið væri við þá samninga sem þegar hefðu verið gerðir við fjármögnun þeirra verkefna sem þegar hefði verið samið um.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert