Ólíklegt að umsóknin haldi áfram

Evrópuþingið í Strasbourg.
Evrópuþingið í Strasbourg.

Þjóðaratkvæði um umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið er líklega eini möguleikinn á að umsóknarferlið haldi áfram. Hins vegar er ríkisstjórn landsins svo hörð á móti inngöngu í sambandið að ólíklegt er að hún óski eftir því við Alþingi að slíkt þjóðaratkvæði fari fram. En jafnvel þó haldið yrði áfram með umsóknarferlið er meirihluti Íslendinga andvígur inngöngu í Evrópusambandið.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu sem unnin var fyrir Evrópuþingið í aðdraganda fundar sameiginlegrar þingmannanefndar þess og Alþingis sem fram fór 27. nóvember síðastliðinn í Brussel. Rætt var á fundinum um viðbrögð Íslands og Evrópusambandsins við efnahagskrísunni, makríldeiluna og fyrirhugaðan fríverslunarsamning á milli Bandaríkjanna og sambandsins. Skýrslan, sem mbl.is hefur undir höndum, var ætluð þingmönnum Evrópuþingsins sem sátu fundinn en hefur hins vegar ekki verið gerð opinber.

Lítur svo á að viðræðunum hafi verið hætt

Ennfremur kemur fram í skýrslunni að ákvörðun núverandi ríkisstjórnar að gera hlé á viðræðunum um inngöngu Íslands í Evrópusambandsins sé að hluta til vegna tveggja erfiðra mála; Icesave-málsins og makríldeilunnar. Ákvörðunin byggi sömuleiðis á almennum efasemdum á Íslandi um kosti þess að ganga í sambandið og taka upp evruna.

Þá segir að í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar sé gert ráð fyrir því að viðræðunum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið verði hætt þrátt fyrir að Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, hafi sagt í ræðu á Alþingi 12. september síðastliðinn að þeim hafi ekki verið endanlega slitið.

Auðveldara með að semja um fríverslun

Efnahagsleg staða Íslands er reifuð bæði fyrir og eftir að bankarnir féllu haustið 2008. Landið sé hins vegar á réttri leið núna ekki síst vegna sjálfstæðs gjaldmiðils. „Þetta litla norræna land hefur að mestu náð sér á strik eftir djúpastæða efnahagserfiðleika sem þakka má gengisfelldum gjaldmiðli og miklum viðskiptaafgangi - viðsnúningur sem var mögulegur að hluta til vegna þess að landið stendur utan við evrusvæðið,“ segir sömuleiðis í skýrslunni.

Þá er meðal annars rætt um fríverslunarsamning Íslands við Kína sem undirritaður var í apríl síðastliðinn. Þar segir að jafnvel í samanburði við minni hagkerfi Evrópusambandsins sé takmörkuð iðnframleiðsla á Íslandi og færri greinar sem þurfi að standa vörð um. „Þetta hefur gert því aðveldara að gera fríverslunarsamninga við stærri viðskiptaþjóðir.“

Ekki samstaða um að refsa Íslendingum

Einnig er rætt um makríldeiluna og forsögu hennar. Evrópuþingið hafi kallað eftir því að Íslendingar yrðu beittir refsiaðgerðum vegna makrílveiða þeirra en ekki hafi hins vegar náðst samstaða um að grípa til þeirra á fundi ráðherraráðs Evrópusambandsins í október síðastliðnum.

Fram kemur að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi boðið íslenskum stjórnvöldum 12% af árlegum makrílkvóta sem þýddi að hlutdeild Íslendinga myndi dragast saman um 13% miðað við núverandi veiðar þeirra. Erfitt sé að ímynda sér að íslenskir ráðamenn gætu sætt sig við það. Staðfesting Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) á að makrílstofninn sé miklu stærri en ráðið hafi áður talið gæti þó liðkað fyrir samningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert