Hjúkrunardeild lokað vegna veirusýningar

Frá Neskaupsstað.
Frá Neskaupsstað. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þetta er sem betur fer gengið niður að mestu. Þetta kom upp á lokaðri hjúkrunardeild um síðustu helgi og fram eftir vikunni. Þannig að við einangruðum hana og takmörkuðum umgang. Síðan voru gerðar varúðarráðstafanir vegna sjúkradeildarinnar við hliðina og tvö herbergi sett í sóttkví. Grunur var um að einkenni væru komin upp þar en svo reyndist síðan ekki vera.“

Þetta segir Valdimar O. Hermannsson, rekstrarstjóri Fjórðungssjúkrahússins á Neskaupstað, í samtali við mbl.is en nóró-veirusýkingar kom upp á sjúkrahúsinu um síðustu helgi sem virðist eiga rætur sínar að rekja til magapestar sem verið hefur í gangi. Hann segir að fyrir vikið hafi sjúkradeildinni ekki verið alfarið lokað heldur aðeins gripið til viðeigandi varúðarráðstafana en hjúkrunardeildinni hafi hins vegar verið lokað í þrjá daga.

„Það var sem sagt bannaður umgangur aðstandenda um hjúkrunardeildina þennan tíma og þeirra sem ekki áttu brýnt erindi. Þeir sem fóru inn voru með grímur og hanska og annað viðeigandi. Það hefur verið að ganga í bænum einhver skæð magapest og hún hefur væntanlega borist hingað inn. En svona sýkingar koma upp á stofnunum sem þessari annað slagið. En við erum með smitsjúkdómalækni hérna þannig að það er einfaldlega gripið til þeirra ráðstafana sem þörf er á,“ segir hann.

Valdimar segir að væntanlega verði opnað fyrir almenna umferð um hjúkrunardeildina eftir daginn á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert