Réttur maður á réttum stað

Gunnar Þór Nilsen.
Gunnar Þór Nilsen.

Íslendingur sem bjargaði fjölskyldu út úr brennandi íbúð í Árósum í Danmörku í morgun ásamt félaga sínum hefur nokkrum sinnum áður verið réttur maður á réttum stað. „Ætli þetta sé ekki einhver ofvirkni í gangi,“ segir Gunnar Þór Nilsen í samtali við mbl.is og hlær.

Gunnar og félagi hans, Friðrik Elís Ásmundsson, eru enn að jafna sig eftir björgunarafrekið í morgun.

„Maður er búinn að vera hálf titrandi mest allan daginn því þetta er svo svakalegt adrenalínkikk sem maður fær út úr þessu,“ segir Gunnar. Aðspurður segist hann finna til óþæginda í hálsi eftir að hafa andað að sér brennandi heitu lofti í íbúðinni, en að öðru leyti er hann ómeiddur.

Gunnar hefur áður verði í hlutverki bjargvættarins í Danmörku. Fyrr í vetur slökkti hann eld sem logaði á svölum heima hjá nágranna hans í Árósum. Fyrir fimm árum bjargaði hann svo lífi ungs Dana eftir bílslys við Horsens og fyrir um áratug var hann fyrstur á vettvang í kjölfar bílveltu.

Braut sér leið inn í íbúð

Fyrir um það bil einum og hálfum mánuði veitti Gunnar því eftirtekt að eldur logaði úti á svölum íbúðarhúss sem er við hliðina á fjölbýlishúsinu þar sem hann býr. Gunnar brást við með því að hringja í neyðarlínuna og í kjölfarið hljóp hann yfir og braut sér leið inn í íbúð sem var við hliðina á þeirri þar sem eldurinn logaði, þar sem hann komst ekki inn í þá íbúð. „Ég skvetti vatni á þetta og svo kom slökkviliði með kranabíl og sprautaði vatni,“ segir Gunnar og bætir við að svo virtist sem að enginn annar hefði orðið eldsins var.

„Það kom ekkert fyrir þar nema ég sparkaði upp hurð og vakti einhvern gæja sem var sofandi á sófanum klukkan fjögur um eftirmiðdaginn,“ segir Gunnar ennfremur.

Ljót aðkoma í eftir bílslys

Árið 2008 kom hann 18 ára dönskum pilti til bjargar í kjölfar bílslyss.

„Ég kom að bílslysi þar sem vörubíll var búinn að reyna að taka fram úr öðrum bíl en hann keyrði beint framan á annan bíl [fólksbifreið] á fullri ferð.“ Að sögn Gunnars var vörubifreiðin með kerru í eftirdragi sem fór inn í fólksbifreiðina. Aðkoman var mjög ljót og pilturinn, sem var í farþegi í fólksbílnum, var mikið slasaður og fastur í bílnum. 

„Það kom ekkert fyrir vörubílstjórann; það sá ekkert á vörubílnum. En þetta var lítil gömul Toyota Corolla sem fór alveg í - ég hef bara aldrei séð annað eins,“ segir Gunnar sem tókst að blása lífi í piltinn og bjarga lífi hans.

Fyrir um tíu árum varð hann svo vitni að því þegar bifreið, sem ók á undan honum, fór á hringsnúast á hraðbrautinni á leiðinni til Randers í Danmörku með þeim afleiðingum að bifreiðin fór margar veltur og hafnaði utan vegar. Þegar Gunnar hljóp að bílnum var eldur farinn að loga í bifreiðinni og reykur steig upp frá henni. „Ég náði að draga manninn út. Hann var allur í lamasessi,“ segir Gunnar. 

Sinnir björgunarstörfum í sjálfboðavinnu

Spurður hvort hann sé búinn að fá nóg, segir hann: „Þetta er orðið fínt í bili. En ég er alveg til í að vera fyrsti maður á staðinn ef ég get hjálpað,“ segir Gunnar Þór og bætir við að hann hafi lært skyndihjálp og farið í gegnum reykköfunarnámskeið, en hann var lengi til sjós. 

Gunnar lærði ljósmyndum í Danmörku þar sem hann hefur verið með annan fótinn í um 12 ár. Hann starfar í dag við kvikmyndagerð á Íslandi en einnig úti í Danmörku. Svo sinnir hann björgunarstörfum í sjálfboðavinnu. „Já, það má orða það þannig,“ segir Gunnar hlæjandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert