Spá stórhríð fyrir norðan og austan

mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir

Með djúpri lægð fyrir austan land er spáð stórhríð norðan- og austanlands í dag, mikilli ofankomu og skafrenningi, samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar. Búast má við slæmu ferðaveðri á landinu í dag, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni.

Á Austfjörðum og Héraði hlánar og síðar einnig vestur með norðurströndinni. Inn til landsins helst hitinn víðast undir frostmarki. Gengur niður síðdegis, en þá er vaxandi ofankoma og vindur á Vestfjörðum.

Veðurhorfur næsta sólarhringinn:

NV 15-23 m/s og talsverð slydda eða snjókoma N- og A-lands. Hvessir V-til um hádegi og fer að snjóa, NV 13-20 m/s og snjókoma síðdegis en él SV-til. Hægari vindur á NA-landi og Austfjörðum eftir hádegi og rigning á láglendi. Frost víða 0 til 6 stig en hlánar með NA- og A-ströndinni um tíma í dag. Suðlæg átt og él í nótt en léttir til NA-til. Vaxandi austanátt og slydda og síðar rigning síðdegis á morgun, fyrst syðst en norðaustan 10-15 m/s og úrkomulítið NV-til.

Hálka eða snjóþekja er á Suðurlandi. Hálkublettir eru á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum. Hálkublettir eru á Reykjanesbraut. Hálkublettir eru á víða á Suðurnesjum. Flughálka er á Suðurstranda- og Krísuvíkurvegi.

Á Vesturlandi er hálka eða snjóþekja. Flughált er víða í uppsveitum Borgarfjarðar. Á Vestfjörðum er hálka og snjóþekja.

Á Norðurlandi er hálka eða hálkublettir og sumstaðar éljagangur. Á Norðausturlandi er hálka, snjóþekja, snjókoma og skafrenningur. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Vopnafjarðarheiði og Sandvíkurheiði.

Á Austurlandi er hálka, snjóþekja, snjókoma og éljagangur. Þæfingsfærð er víða á Héraði en unnið að mokstri. Þungfært og snjókoma er á Fjarðarheiði. Á Suðausturlandi er hálka, snjóþekja og sumstaðar skafrenningur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert