Þjófnaðarmál endurupptekið

Héraðsdómur Suðurlands.
Héraðsdómur Suðurlands. mbl.is

Héraðsdómur Suðurlands hefur sakfellt karlmann fyrir að stela fjórum pakkningum af kjúklingabringum í verslun á Selfossi í mars síðastliðnum. Honum var hins vegar ekki gerð refsing í málinu. Maðurinn hafði áður verið dæmdur fyrir sama brot en málið var endurupptekið að kröfu ríkissaksóknara.

Fyrri dómur í málinu var kveðinn upp 28. júní síðastliðinn og var maðurinn þá dæmdur í átta mánaða fangelsi en fimm mánuðir voru bundnir skilorði. Var þá dæmdur upp skilorðsdómur yfir honum frá 1. febrúar síðastliðnum.

Ríkissaksóknari fór í október fram á það við endurupptökunefnd að málið yrði endurupptekið sökum þess að fyrrgreindur skilorðsdómur hefði einnig verið dæmdur upp í máli sem rekið var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur en dómur í því var kveðinn upp í maí sl. og hlaut maðurinn níu mánaða fangelsi. Endurupptökunefnd féllst á beiðni ríkissaksóknara.

Í niðurstöðu dómsins frá því í dag segir að brot mannsins hafi verið framið fyrir uppkvaðningu dómsins frá því í maí. „Er það mat dómsins að brot það sem ákærði er nú sakfelldur fyrir hefði ekki leitt til þyngri refsingar en ákærða var gert að sæta í áðurgreindum dómi. Verður ákærða því ekki gerð sérstök refsing í máli þessu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert