„Þetta dugar ekki“

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, fór yfir stöðuna með formönnum landssambanda …
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, fór yfir stöðuna með formönnum landssambanda ASÍ. mbl.is/Golli

„Ríkisstjórnin hefur lagt hér inn efni sem gagnast en dugar þó ekki,“ sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, í samtali við RÚV í kvöld eftir að hann kom út af fundi með formönnum landsambanda ASÍ.

Stuttu eftir að formannafundi ASÍ lauk var fundi á Alþingi slitið og boðað til nýs þingfundar kl. 10 í fyrramálið. Fyrir fundinum liggur að ljúka 3. umræðu um fjárlagafrumvarpið.

Sátu saman á samningafundi í fyrrinótt

Gylfi sagði eftir formannafundinn, að atvinnurekendur hefðu nálgast kröfur launþega verulega í fyrrinótt. Í dag hefðu forystumenn Samtaka atvinnulífsins og ASÍ farið sameinilega á fund forystumanna ríkisstjórnarinnar í þeim tilgangi að fá þá til að brúa það bil sem enn væri á milli manna. ASÍ hefði beint því til stjórnvalda að gera breytingar á skattþrepum þannig að það nýttist betur þeim sem eru með lægstu launin og eins „að beint yrði ákveðnum fjármunum til hækkunar á skattleysismörkum.“

Gylfi sagði að ríkisstjórnin hefði komið á móts við ASÍ varðandi mörkin á milli neðra og milliþrepsins í tekjuskatti. Stjórnvöld hefðu hins vegar ekki verið tilbúin til að koma á móts við launþega varðandi hækkun skattleysismarka. „Það er verið að koma á móts við okkur en það dugar ekki til að brúa þetta bil. Annar brúarvængurinn er kominn en okkur skortir að komast yfir. Það hlýtur að gerast núna að við setjumst aftur niður með okkar gagnaðila og förum aftur yfir stöðuna vegna þess að það er ekki búið að ná þessu saman.“

Gylfi sagðist eiga von á að samningsaðilar héldu áfram að ræða saman um helgina.

Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hefur setið á fundi í dag þar sem ræddar eru tillögur um breytingar á lögum um tekjuskatt. Tillögurnar ganga út á að gera breytingar á skattþrepum þannig að þeir sem eru með lægri laun njóti betur skattalækkunar sem boðuð var í fjárlagafrumvarpinu.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA og Magnús Pétursson ríkissáttasemjari bíða eftir …
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA og Magnús Pétursson ríkissáttasemjari bíða eftir svörum ASÍ. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert