Þúfan opnar sjóndeildarhringinn

Umhverfislistaverkið Þúfa eftir Ólöfu Nordal var formlega vígt kl. 15 í dag.  Verkið er afrakstur samkeppni sem HB Grandi efndi til í samvinnu við Samband íslenskra myndlistamanna (SÍM) og Faxaflóahafnir.

Myndverkið Þúfa, sem stendur við vestanverða innsiglinguna að Reykjavíkurhöfn, gegnt Hörpu, er grasi vaxinn hóll með steinþrepum sem leiða upp á topp hólsins. Þar er lítill fiskhjallur sem gert ráð fyrir að þurrkaður verði hákarl og annar fiskur. Hóllinn er 26 metrar í þvermál og 8 metra hár. Í verkið fóru um 2.400 rúmmetrar af jarðefni og efnismagnið vegur um 4.500 tonn þegar allt er talið, að því er segir á vef HB Granda.

 „Ég vildi gera milt og mjúkt verk sem fólk upplifir vel á staðnum og að verkið virki á áhorfandann bæði andlega og líkamlega,“ segir Ólöf í samtali við Morgunblaðiði í dag. Hún bendir ennfremur á, að þegar komið sé að því sé það í raun umhverfið í kringum það sem við nemum.

„Það má segja að gengið sé inn í verkið og þegar upp er komið verður allur sjóndeildarhringurinn hluti af því.“ Af listaverkinu mun sjást vel yfir gamla bæinn, höfnina og út á sundin.

 „Verkið heitir Þúfa í merkingunni lítið fjall. Þegar gengið er upp á fjallið blasir við okkur fiskihjallur þar sem verður þurkaður fiskur. Það er tilvísun í starfsemi HB Granda en um leið opnast líka sjóndeildarhringurinn og fólk nemur alla borgina og sundin,“ sagði Ólöf ennfremur í samtali við Morgunblaðið.

Vígsluathöfnin hefst hófst með ávarpi  Vilhjálms Vilhjálmssonar, forstjóra HB Granda. Auk Vilhjálms sögðu Ólöf Nordal myndlistarmaður og Hjámar Sveinsson, formaður stjórnar Faxaflóahafna, nokkur orð. Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, vígði listaverkið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert