Gerir mynd um heimafæðingar

Kvikmyndagerðarkonan Dögg Mósesdóttir vinnur þessa dagana að heimildamynd um heimafæðingar sem óhætt er að segja að séu umdeildar í okkar samfélagi. Hún segir að mikilvægt að efla skilning og þekkingu fólks á efninu þar sem fæðingarstöðum á landinu fari ört fækkandi.

Hún hefur reynslu af ferlinu en endaði á spítala í bráðakeisaraaðgerð og þekkir því ýmsar hliðar á málinu á eigin skinni en hún fékk einnig að fylgjast með einni slíkri við gerð myndarinnar sem hún segir að hafi verið afar sérstakt tilfelli sem veki upp spurningar í tengslum við ferlið en vill bíða með að segja frá því hvað gerðist nákvæmlega.

Þrátt fyrir að vera að gera myndina segist Dögg alls ekki vera í áróðursherferð fyrir heimafæðingum, áherslan sé lögð á að konur hafi val um hvernig þær vilji að ferlið sé enda nefnist myndin Valið. 

Í myndinni er t.a.m. rætt við mikið af fólki í heilbrigðiskerfinu sem hefur reynslu og þekkingu á sviðinu en Dögg safnar nú fé á Karolinafund til að geta klárað myndina. 

Í lýsingu á myndinni kemur fram að:

Fæðing er ein mikilvægasta en jafnframt viðkvæmasta stund í lífi konu. Fæðingarupplifunin hefur mótandi áhrif á allt hennar líf og almenna vellíðan móður eftir fæðingu. Rannsóknir sýna að slæm fæðingarreynsla eykur líkur á fæðingarþunglyndi og getur valdið sömu einkennum áfallastreituröskunar og þolendur kynferðisofbeldis upplifa. 

Fjölda fæðingarstaða hefur verið lokað á landsbyggðinni og frá og með 1.mars verður Hreiðrinu lokað. Allar fæðingar á Höfuðborgarsvæðinu og víðar færast inn á fæðingargang Landspítalans þar sem inngrip eru algeng. Lítið hefur verið rannsakað áhrif inngripa í fæðingu á börn eða mæður en vitað er að inngrip, leiða til frekari inngripa og eru mun dýrari fyrir samfélagið en náttúrulegar fæðingar.  

Konur á Höfuðborgarsvæðinu, Akureyri, Eyjarfjarðarsveit og á Höfn í Hornafirði hafa þó eitt annað val,  það eru heimafæðingar. Heimafæðingar hafa aukist undanfarið og eru nú algengastar hér af Norðurlöndum. Árið 2012 voru þó aðeins 2% kvenna sem fæddu heima þrátt fyrir að 97% kvenna sem fæða heima séu ánægðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert