Tilraun sem verður að takast

Frá undirritun kjarasamninganna í Karphúsinu á laugardagskvöld.
Frá undirritun kjarasamninganna í Karphúsinu á laugardagskvöld. mbl.is/Golli

Formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna (VM) segir að áherslur og framtíðarmarkmið kjarasamningsins sem var skrifað undir um helgina sé tilraunarinnar virði. Þetta sé hins vegar tilraun sem verði að takast.

Hann segir að samningurinn sé vopnahlé til eins árs og mun VM ekki koma aftur að samningi sem feli í sér samræmda launastefnu. Finna þurfi leiðir til að hækka laun á Íslandi, auka jöfnuð og snúa af vegi ofsagróðahugmyndafræði fyrir fáa útvalda. 

Þá harmar hann lýðskrum þeirra sem gagnrýna samninginn en hafi ekki manndóm í sér til að leggja eitthvað til málanna  og axla ábyrgð.

Þetta kemur fram í pistli sem Guðmundur Ragnarsson, formaður VM skrifar, undir yfirskriftinni: „Tilraun sem verður að heppnast“

„Ónýtu taxtakerfi, óstöðugu íslensku hagkerfi og mikilli misskiptingu verður ekki breytt á einni nóttu. Kjarasamningurinn á almennum vinnumarkaði sem skrifað var undir 21. desember sl. með þeim breyttu áherslum og framtíðarmarkmiðum sem í honum eru, eru tilraunarinnar virði. Launahækkanirnar eru ekki miklar en lengra var ekki komist til að ná samningi og komast inn í næsta skref sem mun hefjast í janúar 2014. Þá verða lagðar  fram kröfur og  viðræður eiga síðan að hefjast í febrúar.  Samningstímann á að nýta til að finna nýjar og byltingakenndar leiðir til breytinga, það er allavega mín túlkun á texta samningsins. Samræmdri launastefna mun VM ekki taka þátt í aftur, þetta ár sem samningurinn gildir lít ég á sem vopnahlé,“ skrifar hann og bætir við að VM sé tilbúið í þessa vinnu.

„Vissulega er ég ósáttur við að ekki náðist betri niðurstaða og maður á að vera það. Hinsvegar má ekki gleyma þætti ríkjandi stjórnvalda í aðkomu að samningi sem þessum, sem varð minni en vonir stóðu til um,“ segir hann ennfremur.

„Það er sorglegt að þurfa að horfa upp á lýðskrumið sem keyrt er gegn þeirri vinnu sem maður er að vinna af heiðarleika, til að reyna að ná árangri og vera tilbúinn að taka ákvörðun og axla ábyrgð,“ skrifar Guðmundur, sem er harðorður í garð Vilhjálms Birgissonar formanns Verkalýðsfélags Akraness í pistli sínum.

„Það er sorglegt að þurfa að horfa upp á lýðskrumið sem keyrt er gegn þeirri vinnu sem maður er að vinna af heiðarleika, til að reyna að ná árangri og vera tilbúinn að taka ákvörðun og axla ábyrgð.
Í þau rúmlega fimm ár sem ég hef starfað í þessu þá hef ég ekki látið formann Verkalýðsfélags Akraness pirra mig,  ég get bara ekki lengur setið á mér. Að einstaklingur skuli vera kallaður verkalýðsforingi, einstaklingur sem aldrei þorir að taka þátt í að finna raunhæfar lausnir og axla ábyrgð á þeirri niðurstöðu sem næst.
Það er auðveldasta leiðin í svona starfi að vera til hliðar og gagnrýna allt sem gert er og hafa aldrei neinar lausnir, því síður að setja hlutina í samhengi. Ég kalla þetta lýðskrum og kjarkleysi, auk athyglissýki sem nær að lifa með óhæfu fjölmiðlafólki sem aldrei spyr hann um lausnir eða útfærslu á þeim vandamálum sem  verið er að reyna að leysa. Honum er lofað að romsa út úr sér þessum fimm til sjö frösum sem hann kann og margir vilja heyra.  Innihaldið í boðskapnum er ekkert, því ekki hefur hann lausnirnar.  Hvernig þessi einstaklingur kemur sí og æ í bakið á félögum sínum hjá Starfsgreinasambandinu,  ausandi svívirðingum yfir þá sem kjörnir eru til að vinna að hagsmunamálum launþegahreyfingarinnar, er versta tegund af kjarklausum lýðsskrumara. Kannski er nauðsynlegt að haf svona einstakling  til að lífga upp á umræðuna, en mér býður við þessu bulli.

Hann gat tekið samningsumboðið af Starfsgreinasambandinu áður en skrifað var undir og gert betri samning, hann hafði hinsvegar ekki kjarkinn til þess.“

„Við hjá VM höfum lagt á okkur mikla undirbúningsvinnu og bíðum óþreyjufullir eftir þeirri vinnu sem framundan er, að gera byltingakenndar breytingar í að bæta kjör okkar félagsmanna. Við höfum hugmyndafræðina og kjarkinn til að fara í þetta verkefni og trúna á að okkur takist það. Mistakist þessi tilraun sem við lögðum grunn að með þessum kjarasamningi, þá getum við í það  minnsta staðið keikir á eftir og sagt við reyndum og lögðum mikið á okkur við að ná markmiðum okkar fram,“ segir Guðmundur.

Pistillinn í heild

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM.
Guðmundur Ragnarsson, formaður VM.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert