Sjómannaafsláttur verði endurreistur

Sjómenn á Austurvelli.
Sjómenn á Austurvelli. mbl.is/Júlíus

Um áramótin verður skattaafsláttur sjómanna að fullu afnuminn, 60 árum eftir að honum var fyrst komið á. Sjómannafélag Íslands hélt aðalfund sinn í gær og samþykkti þar ályktun þar sem segir að þetta séu kaldar kveðjur til sjómanna. Íslensk þjóð sé sú eina við N-Atlantshaf án sjómannaafsláttar.

Norskir sjómenn fá 3,3 milljóna króna skattaafslátt, danskir 1,9 milljónir og færeyskir eina milljón króna í afslátt. Íslenskir sjómenn fengu áður rúma tíund af norska afslættinum, en það hefur nú verið afnumið.

Í ályktun aðalfundar Sjómannafélagsins er bent á að 5 þingmenn hafi á síðasta löggjafarþingi lagt fram tillögu „sem miðaði að því að hrinda árás ríkisvaldsins á sjómenn“.  Þingmennirnir færðu þau rök fyrir máli sínu að fiskveiðiþjóð verði að tryggja sjómönnum sínum sambærileg kjör vð þau sem tíðkast hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við.

Sjómannafélagið bendir á að árið 2008 hafi liðlega 6.000 íslenskir sjómenn fengið afslátt að upphæð 1.100 milljónum króna. Sama ár hafi 3.875 manns fengið dagpeninga að upphæð tæpum 9 milljörðum króna. Til opinberra starfsmanna greiddi ríkið þá rúmar 1.500 milljónir.

Um þetta sögðu þingmennirnir fimm í greinargerð: „Það er sanngjörn krafa að sjómenn njóti áfram kjara sem þeir hafa haft í áratugi, en annað fæli í sér ójafnræði við aðrar starfsstéttir sem geta nýtt sér dagpeningagreiðslur í formi skattaafsláttar.“

Þrír þessara þingmanna eru enn á Alþingi og sitja nú öll í ríkisstjórn. Það eru þau Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Gunnar Bragi Sveinsson. 

Aðalfundur Sjómannafélags Íslands krefst þess að ráðherrarnir þrír beiti sér fyrir því að sjómannaafsláttur verði endurreistur.

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra. Alþingi.
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra. Alþingi. mbl.is/Ómar Óskarsson
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, á Alþingi.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert