Ólafur hvetur til samstöðu

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. mbl.is/Eggert

Samstaða íslensku þjóðarinnar var Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, ofarlega í huga í nýársávarpi hans. Hann hvatti landsmenn til að leita sátta og standa saman. Hann sagði jafnframt að fátækt væri smánarblettur á íslensku samfélagi.

„Oft er haft á orði að við Íslendingar séum eins og ein fjölskylda, sýnum samhug þegar áföll dynja yfir eða hamfarir ógna byggðarlögum. Á örlagastundum hefur samstaðan ráðið úrslitum og nú í vetur vorum við enn á ný minnt á sigrana sem hún skóp,“ sagði Ólafur Ragnar.

„Nú er hins vegar nauðsynlegt, já reyndar brýnt, að hefja þá til vegs á ný, gera að leiðarljósi við lausn sem flestra mála, leita sátta og samstöðu í stað þess að kasta æ fleiri sprekum á ófriðarbálið,“ sagði hann ennfremur.

Tímamót blasa við Íslendingum

Ólafur Ragnar segir að tímamót blasi við Íslendingum en „að baki fimm ára glíma við afleiðingar bankahrunsins og framundan skeið endurreisnar, nýrrar sóknar, betra lífs, er brýnt að nýta enn frekar samstöðuna.“ 

Í glímunni við skuldavanda heimilanna er sáttmáli kynslóðanna forsenda víðtækrar lausnar, líkt og þjóðarátak er lykillinn að bættri kunnáttu í skólum landsins. Metnaður Íslendinga er að vera í fremstu röð í lestrargetu unglinganna; annað sæmir vart bókaþjóð, eins og við köllum okkur á góðri stundu.

Sama gildir um baráttuna gegn fátæktinni meðal okkar; ólíðandi með öllu að þúsundir þurfi að treysta á matargjafir um heilög jól og slíka aðstoð árið um kring. Það er sárt að árétta aftur hér í ávarpi á nýársdag að slík fátækt, einkum ungra mæðra og einstæðinga, er smánarblettur á íslensku samfélagi; smánarblettur sem við gætum svo hæglega með samstilltu átaki komið í kistu liðinnar tíðar.

Samstaðan hefur jafnan reynst okkur vel þegar vanda þarf það sem lengi
skal standa, verið leiðarljós um erfiða hjalla,“ sagði Ólafur Ragnar.

Norðurslóðir hringiða nýrrar heimsmyndar

Þá sagði Ólafur að reisn Alþingis hafi ætíð verið mest þegar flokkar gátu staðið saman.

„Þótt málvenjan skipti Alþingi í stjórn og stjórnarandstöðu, er hollt að minnast þess að reisn þingsins var ætíð mest þegar flokkarnir báru gæfu til að standa saman; þingheimur vex af því að slíðra sverðin. Sú varð raunin þegar Alþingi tókst með öllum greiddum atkvæðum að endurnýja stjórnarskrána á lokaskeiði síðustu aldar: færa þjóðinni nýjan kafla um mannréttindi, breyta kjördæmaskipan og kosningakerfi, afnema deildaskiptingu Alþingis og gera þingrofsréttinn lýðræðislegan – í heild viðamiklar breytingar á stjórnskipun landsins, studdar af öllum flokkum og fylkingum,“ sagði forsetinn.

Ólafur Ragnar sagði að það hefði verið fagnaðarefni að Alþingi skyldi samþykkja einhuga stefnu Íslands í málefnum Norðurslóða. Það hefði skapað traustar undirstöður að nýju burðarvirki í alþjóðatengslum Íslendinga.

Hann sagði að Norðurslóðir væru í vaxandi mæli hringiða nýrrar heimsmyndar og að framvegis yrði rúmur helmingur G-20 ríkjanna á einn eða annan hátt með Íslandi við ákvarðanaborð Norðursins.

„Þessi þáttaskil skapa Íslendingum fjölda nýrra tækifæra – í vísindum, viðskiptum, atvinnulífi og menningu. Eyjan í útnorðri er nú komin í þjóðbraut þvera, lykilstöðu á svæði sem ráða mun miklu um þróun hinnar nýju aldar; áfangastaður þegar æ stærri hluti auðlindanýtingar og vöruflutninga verður um Norðrið; að ógleymdum milljónum ferðamanna frá öllum álfum sem vilja upplifa ævintýrin sem búa í náttúrunni, dást að miðnætursól og norðurljósum,“ sagði Ólafur.

Ísland í lykilstöðu

„Ísland sem var um aldir einangrað og á fyrstu áratugum lýðveldis heft í fjötra kalda stríðsins, er nú eftirsóttur bandamaður við þróun samstarfs um nýja Norðrið; er í lykilstöðu á vettvangi margra stofnana og tengslaneta, norrænna og evrópskra, og einnig þeirra sem teygja sig alla leið til Asíu og yfir Atlantshafið til Bandaríkjanna og Kanada.  

Það er gæfa lítillar þjóðar, sem nú er á tímamótum eftir glímuna við bankahrunið, að eiga kost á slíkri vegferð og geta nýtt hana í þágu allra; gæfa efld af samstöðunni um Norðurslóðir sem tókst að skapa á Alþingi og studd er eindregnum vilja allra flokka, víðtækum áhuga háskóla, fræðasamfélags, atvinnulífs, fyrirtækja, samtaka á mörgum sviðum,“ sagði hann ennfremur.

„Við Íslendingar eigum líka lærdóma og leiðarljós, reynslu úr hirslum sögunnar, sem nýst geta okkur á nýrri braut, frá átakaskeiði liðinna ára til varanlegrar samheldni og samstöðu,“ sagði forsetinn að lokum.

Ávarp forseta Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert