Vélin átti ekki að vera þarna

Frá vettvangi slyssins.
Frá vettvangi slyssins. Skapti Hallgrímsson

„Við viljum að málið verði upplýst eins vel og mögulegt er. Það er ekki síst mikilvægt með tilliti til öryggis í sjúkraflutningamálum hér á landi,“ segir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður barna Péturs Tryggvasonar sjúkraflutningamanns sem lést þegar TF-MYX, flugvél Mýflugs, fórst á Akureyri í fyrrasumar.

Í frétt vísis.is í morgun var haft eftir bróður Péturs, Mikael Tryggvasyni, að hann hygðist fara fram á opinbera rannsókn á tildrögum og eftirmálum slyssins.

Vilhjálmur segir að í skýrslum lögreglu um málið komi nokkuð annað fram en það sem stendur í bráðabirgðaskýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa um málið. Rannsókn er enn í gangi og lokaskýrsla enn í vinnslu og Vilhjálmur segir ekki liggja fyrir hvenær hún kemur út. Spurður hvort ekki sé nægilegt að Rannsóknarnefndin vinni að rannsókninni segist hann vonast til þess. „Við munum biðja um frekari rannsókn ef við teljum þörf á því og ástæðu til þess.“

Er þá verið að tala um frekari lögreglurannsókn? „Já, ef tilefni þykir til.“

Bendir eitthvað til þess? „Við bara vitum það ekki núna. En það verður að hafa í huga að þarna var um að ræða sjúkraflug, þar ætti fyllsta öryggis að vera gætt vegna þeirra sem eru um borð, bæði sjúklinganna, sjúkraflutningamannanna og flugmannanna. Það liggur þegar fyrir að þessi vél átti ekki að vera þarna sem hún fórst. Það hefur komið fram frá upphafi að vélin var að taka aukahring eftir að hafa óskað eftir að hætta við lendingu á Akureyrarflugvelli. En vélin átti að vera lent.“

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður hjá Landslögum.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður hjá Landslögum. www.landslog.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert